Halldór Laxness fæddist 23. apríl 1902, þegar tvö ár voru liðin af öldinni, og kvaddi 8. febrúar 1998, þegar tvö ár voru eftir af henni. Hann upplifði mestu breytingar sem orðið hafa á einni öld í sögu Íslands; þegar hann hóf að skrifa var Ísland í raun enn bændasamfélag, Reykjavík var smábær og meirihluti íbúa bjó á sveitum. Hann varð þannig þátttakandi í því að færa heila þjóð nánast frá miðöldum til nútímans. Það er þess vegna ekki að undra þótt menn segðu við fráfall hans að 20. öldin á Íslandi hafi verið öld Halldórs Laxness. Hann var lengi umdeildur fyrir stjórnmálaskoðanir sínar en eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 má segja að þjóðin hafi sameinast um hann.
Halldór Laxness vissi snemma hvað hann ætlaði sér. Hann vildi verða rithöfundur í fremstu röð í heiminum. Hann var sískrifandi í æsku og fyrsta skáldsagan leit dagsins ljós árið 1919. Dómar um hana voru nokkuð jákvæðir og töldu sumir að kannski væri hér efnilegur höfundur á ferð. Hann hélt síðan til útlanda, dvaldist í Kaupmannahöfn og fékk meðal annars birta eftir sig smásögu á dönsku á forsíðu helgarútgáfu stærsta dagblaðsins þar í landi, Berlingske Tidende. Nokkrum dögum áður en sagan birtist, eða 10. október 1919, skrifaði hann móður sinni í bréfi: „Ég finn það glöggt hvað þessi för mín [til Kaupmannahafnar] er stórt spor í áttina til þess sem ég hef leitað eftir, nefnilega þekkíngar á mönnunum og veröldinni, til þess að ég geti orðið virkilegt skáld, hvað allur hugur minn snýst um.“
Halldór Laxness ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska rithöfunda á 20. öld. Hann var afkastamikill á löngum ferli, skrifaði þrettán stórar skáldsögur, fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögunni, fyrir utan smásagnasöfn, greinasöfn og endurminningarbækur. Bækur hans hafa verið þýddar á 43 tungumál og komið út í meira en 500 útgáfum. Ferill hans er einstakur, fjölbreytni verka hans á sér fáar hliðstæður og má segja að með hverri bók hafi hann komið að lesendum sínum úr óvæntri átt. Þá þýddi hann m.a. Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson, Birtíng eftir Voltaire og Vopnin kvödd og Veislu í farángrinum eftir Ernest Hemingway.