Hannibal Valdimarsson bauð Halldór velkominn heim. Að því búnu ávarpaði skáldið viðstadda af skipsfjöl:
„Kæru landar! Ég þakka hinum mörgu, sem hafa sýnt mér vinarhug bæði með nærveru sinni hér og annan hátt þessa síðustu daga. Ég þakka Bandalagi íslenzkra listamanna, félögum mínum og sambræðrum í listinni fyrir að hafa tekið þátt í þessari móttökuathöfn. Ég þakka vinum mínum, Jóni Leifs, tónskáldið, fyrir hin hlýju orð hans í minn garð hér. Alveg sérstaklega þakka ég íslenzku alþýðusamtökunum fyrir að heiðra mig hér á þessum morgni. Ég þakka forseta þess fyrir þau orð, sem hann hefur látið falla hér í minn garð. Og vil ég um leið og ég þakka alþýðu Íslands – enn einu sinni fara með ofurlitla tilvitnun, sem ég hef stundum haft tækifæri til að fara með áður, um skáld, sem hefur sent ástmey sinni ljóð – ljóðasyrpu – þegar hún þakkaði honum fyrir þau, segir hann þessi orð í ljóðum: „Þakka þú mér eigi fyrir þessi ljóð, það varst þú, sem gafst mér þau öll saman áður.“ Þessi staðreynd haggast ekki þó óvænt sæmd hafi borist mér að höndum frá merkri erlendri stofnun, og vil ég þakka þjóð minni, – þakka íslenzkri alþýðu hér á þessum vonglaða haustmorgni, og ég vil biðja henni velfarnaðar um ókomnar tíðir.“