Vive la France

08/07 2013

Hlín Pétursdóttir

Á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins, þann 14. júlí, mun franskur andi svífa yfir vötnum en sá dagur er einmitt þjóðhátíðardagur Frakka. Þá munu Hlín Pétursdóttir söngkona og Gerrit Schuil píanóleikari leika lög eftir Henri Duparc, Gabriel Fauré og fleiri auk laga við ljóð Halldórs Laxness.

Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 og aðgangseyrir eru 1000 krónur. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Gerrit Schuil fæddist í Vlaardingen í Hollandi. Aðeins níu ára gamall vann hann til fyrstu verðlauna í keppni 200 ungra tónlistarmanna, og lék hann í hollenska ríkisútvarpinu tveimur árum síðar. Gerrit hóf nám við Tónlistarháskólann í Rotterdam árið 1968. Ári síðar kom hann fram sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveit Rotterdams í d-moll concerto eftir Brahms. Gerrit Schuil hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Asíu. Í nokkur ár stjórnaði Gerrit hljómsveitum hollenska útvarpsins sem á þeim tíma voru einnig hljómsveitir hollensku ríkisóperunnar. Hann hefur einnig stjórnað fjölda annarra evrópskra og amerískra hljómsveita bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum. Eftir tónleikaför til Íslands árið 1992 settist Gerrit hér að og býr nú í Reykjavík. Síðan þá hefur hann verið leiðandi í tónlistarlífi landsins þar sem hann hefur haldið fjölda tónleika, stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveit Reykjavíkur og uppfærslum Íslensku óperunnar. Hann hefur stýrt tónlistarhátíðum og tekið upp geislaplötur með mörgum af bestu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins. Gerrit hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í flokknum flytjandi ársins 2011.

Hlín Pétursdóttir Behrens lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir leiðsögn Sieglinde Kahmann og stundaði síðan framhaldsnám við óperudeild tónlistarháskólans í Hamborg. Veturinn 1994-95 var hún gestasöngvari við óperuhúsin í Stuttgart og Bern. Árin 1995-97 var Hlín fastráðin við Pfalztheater Kaiserslautern og söng þar m.a. Adele í Leðurblökunni, Despinu í Cosi fan Tutte og Sophie í Rosenkavalier.  Við Staatstheater am Gärtnerplatz í München starfaði Hlín árin 1997-2004.  Á þessum árum kom hún fram sem gestur í óperuhúsum víðsvegar um Þýskaland, auk þess að syngja í Austurríki, Sviss, Frakklandi og Svíþjóð og kynna íslenska tónlist á ljóða- og kirkjutónleikum.  Meðal hlutverka voru Ólympia í Ævintýrum Hoffnanns, Frasquita í Carmen, Blonde í Brottmáminu, Zerlina í Don Giovanni, Papagena og 1. dama í Töfraflautunni, og Fiakermilli í Arabellu. Hún hefur sungið öll helstu verk kirkjubókmenntanna. Meðal stærri tónleika eru Carmina Burana og Requiem Mozarts í tónlistarhöllinni í Hamborg, Messías í Hamborg og Strahlsund,  c-moll messa Mozarts í Hamborg og Kaiserslautern og óperettugala í Fílharmóníunni í Berlín og í óperunni í Frankfurt. Hlín flutti heim haustið 2004 og kennir nú við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Á Íslandi hefur Hlín sungið hlutverk Musettu í La Bohème eftir Puccini, Chlorindu í Öskubusku eftir Rossini og Ännchen í Galdraskyttunni eftir Weber, auk þess að koma fram á ljóðakvöldum, kammertónleikum og syngja kirkjutónlist. Framundan eru tónleikar í Noregi og Þýskalandi.

Hér má finna dagskrá stofutónleikanna fyrir sumarið 2013