Við kveðjum Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur

22/09 2022

Anna Guðný Guðmundsdóttir og Diddú

Í dag kveðjum við Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur. Vináttu hennar og samstarfs verður sárt saknað. Hún varð tónlistarráðunautur Gljúfrasteins árið 2006 þegar ákveðið var að standa fyrir stofutónleikum í anda þeirrar tónleikahefðar sem var í tíð Halldórs og Auðar. Tónlistin skyldi óma á Gljúfrasteini alla sunnudaga yfir sumarmánuðina og raunar skipar sú hefð enn mikilvægan sess í starfi safnsins.  

Það var ætíð tilhlökkunarefni að hitta Önnu á vorin þegar dagskrá sumarsins var til umræðu. Hún var með sterka sýn; flygillinn skyldi vera í aðalhlutverki ásamt söng. Önnu þótti mikilvægt að hafa fjölbreytileika tónlistarinnar í fyrirrúmi. Sjálf spilaði hún margoft, bæði ein og með öðru listafólki. Anna var stórkostlegur píanisti, hógvær, næm og hafði einstaklega hlýja nærveru. Minningar um fallega tónlist í stofunni á Gljúfrasteini eru margar og dýrmætar.  

Við minnumst Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur með þakklæti og virðingu. Aðstandendum og vinum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.