Veiðistóll, Landaparís og Maríuklæði

22/10 2013

Stóri glugginn mót suðvestri varð strax blómagluggi en innréttingunum fyrir framan hann var breytt árið 1960, þegar langur sófi var settur þar og flygillinn færður í hornið. Sófinn hefur þrisvar verið yfirdekktur. Steinda glerverkið í endaglugganum er eftir Nínu Tryggvadóttur.

Sunnudaginn 27. október býður Gljúfrasteinn - hús skáldsins upp á leiðsögn um húsið. Sérstök áhersla verður lögð á húsið sjálft, húsmuni og handverk sem í því eru og setja sterkan svip á heimilið.

Hugað verður að ýmsum munum sem setja svip á hús skáldsins s.s. eins og Eggið hönnun danska hönnuðarins Arne Jacobsen, veiðstól Börge Mogensen ásamt Landaparís og Maríuklæði Auðar Sveinsdóttur, sem bera ásamt öðrum verkum hennar sem prýða heimilið vott um hugmynda- og fagurfræði hennar í handverki og hönnun.

Þau Guðný Dóra Gestsdóttir forstöðumaður safnsins, Gréta Sigríður Einarsdóttir, Jóhannes Ólafsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir munu ganga með gestum um safnið en að undanförnu hefur starfsfólk safnsins unnið að rannsóknarverkefnum um húsmuni þess og verk Auðar Sveinsdóttur. Leiðsögnin tekur um 30 mínútur og verður á eftirfarandi tímum: Kl. 13:00, 14:00, 15:00 og 16:00 sunnudaginn 27. október. Aðgangseyrir er hinn sami og venjulega. Minnum gesti á að fleiri bílastæði eru rétt hinum megin við ána eins og sjá má hér.

Verið hjartanlega velkomin!