Þriðjudaginn 1. maí heldur Tómas R. Einarsson ásamt söngvurum og hljómsveit útgáfutónleika í stofunni á Gljúfrasteini. Þar verður flutt tónlist hans tengd Halldóri Laxness sem nýverið kom út á geisladisknum Laxness. Það eru lög úr heimildarmyndinni Laxness og Svarti listinn sem sýnd var nýverið í Ríkissjónvarpinu og tvö sönglög: S.S. Montclare sem Ragnhildur Gísladóttir syngur og Hjarta mitt í flutningi Ragnheiðar Gröndal. Hljómsveitina skipa auk kontrabassaleikarans Tómasar þeir Davíð Þór Jónsson á píanó og básúnu, Ómar Guðjónsson á gítar og túbu og Matthías MD Hemstock á trommur.
Tvennir tónleikar verða haldnir, kl. 16 og klukkan 18. Hægt er að hafa samband við afgreiðslu safnsins á Gljúfrasteini til að panta miða, en þeir kosta kr. 2000. Hægt er að hringja í 586 8066 eða senda tölvupóst á netfangið gljufrasteinn@gljufrasteinn.is
Í bæklingi geisladisksins Laxness skrifar Halldór Guðmundsson rithöfundur um Halldór Laxness og djassinn. Þar stendur m.a.:
Við vitum að tónlistin var æðst listgreina að dómi Halldórs og að hann hafði dálæti á Bach, og höldum kannski að hann hafi ekki hlustað á annað en klassíska tónlist. En þá gleymum við því að á millistríðsárunum er Halldór ungur maður sem vill gleypa við allri nútímamenningu og kynna sér nýjustu listastefnur, eins og víða má sjá í skrifum hans. Til dæmis lýsir hann í blaðagrein sem hann sendir heim frá Taormína á Sikiley árið 1925 hvernig öllu ægi saman þar á skemmtistöðum, jafnt kínverskum pótintátum, hálfblönkum listamönnum, máluðum auðmæringafrúm og hómósexúalískum dansmeisturum, og bætir við: „en meðan allt þetta gerist er stiginn foxtrott og tangó, sungið og híað og hlegið, eða talað hljóðskraf og þuklað og strokið, en jazz djöfullinn grenjar á alt saman með viðlíka krafti og uppskipunarvél í Leith...“. Fjórum árum síðar er hann staddur í Los Angeles og skrifar þá hjá sér í minniskompu: „En ef satt skal segja, þá voru negrarnir, saungmenning þeirra og dans, það merkilegasta og athyglisverðasta sem fyrir mig bar í Ameríku.”