Uppruni, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar

19/04 2015

Theódóra Þórðardóttir ásamt annarri sýningarstúlku sýna handprjónaðar lopapeysur fyrir G. Bergmann heildsala árið 1961.

Haustið 2014 hófst rannsókn á uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar en verkefnið var samstarfsverkefni þriggja safna; Gljúfrasteins – húss skáldsins, Hönnunarsafns Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blöndudósi. Rannsóknin var unnin af Ásdísi Jóelsdóttur lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknin byggir á frumheimildum í formi munnlegra og ritaðra heimilda úr greinum og umfjöllunum. Höfundur skýrslunnar vann með bréfasöfn, ljósmyndir og safnmuni og notaðist einnig við prjónauppskriftir og auglýsingar í dagblöðum, tímaritum og bæklingum í rannsókn sinni. Viðtöl voru tekin við fjölmarga einstaklinga, auk þess hafa margir aðilar veitt upplýsingar og gefið ábendingar. Varðveisla safna á handprjónuðum peysum og öðrum munum var rannsókninni einnig mikilvæg. Einnig ber sérstaklega að nefna framlag og skrif Halldóru Bjarnadóttur og rannsóknir Elsu E. Guðjónsson á uppruna prjónsins á Íslandi.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að fjölmargir áhrifavaldar hafa átt þátt í að marka upphaf, hönnun og þróun lopapeysunnar. Hún hefur fyrst og fremst mótast innan grasrótarinnar og þannig fengið sinn eðlilega framgang og þroska. Lopapeysan sameinar útsjónarsemi, handverksþekkingu og meginhráefnið til fatagerðar hér á landi, þ.e. ullina.

Í skýrslunni má m.a. finna upplýsingar um prjón og ullarvinnslu í sögulegu samhengi og þær aðstæður hérlendis sem rekja má upphaf lopapeysunnar til og þá þróun sem greina má allt frá upphafsárum Lýðveldisins. Rakin eru þau atriði sem gerðu lopapeysuna að séríslenskri frumhönnun sem þróuð var í samvinnu og með þátttöku margra aðila og áhrifavalda þar sem samfélags- og tæknilegir þættir og framboð og eftirspurn hafa skipt sköpum. Það að hægt væri að gera úr lopapeysunni fljótunna og söluhæfa vöru þar sem margir aðilar gátu haft af því hag, er grunnurinn að því að lopapeysan festi sig í sessi.

Lopapeysan er þannig mikilvægur hluti af tæknibyltingu og útflutnings- og hönnunarsögu þjóðarinnar og hefur því ekki að ástæðulausu orðið stór þáttur í þjóðarímynd um Íslendinga.

Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og er aðgengileg á heimasíðum safnanna þriggja. Rannsóknin hlaut styrk úr Safnasjóði.

Skýrsla Ásdísar Jóelsdóttur á pdf formi.