Upplestur ritlistarnema á degi íslenskrar tungu

10/11 2022

Halldór situr í Veiðistólnum, "Hunting chair" eftir danska hönnuðinn Børge Mogensen.

Gljúfrasteinn blæs til upplesturs á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Ritlistarnemar Háskóla Íslands munu lesa eigið efni. Viðburðurinn hefst kl. 17 og stendur í klukkustund.

Lesarar eru þau Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Daníel Daníelsson, Karólína Rós Ólafsdóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir og Sölvi Halldórsson.

Birgitta Björg Guðmarsdóttir er skáld frá Reykjavík. Hún nam íslensku við Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út eina skáldsögu, Skotheld (2018), með bókaforlaginu Kallíópu. Verk eftir hana hafa verið birt í tímarititnu Leirburði, auk þess sem Birgitta hefur skrifað pistla fyrir Stúdentablað Háskólans.  Birgitta er einnig einn textahöfunda hljómsveitarinnar Ólafur Kram. Birgitta beinir sjónum sínum helst að tilveru innan líkama, femínisma og vistrýni, en hún skrifar helst lengri prósa, ljóð og smásögur.

Karólína Rós Ólafsdóttir er skáld sem skrifar bæði á íslensku og ensku. Hún lauk BA gráðu í ritlist við Goldsmiths Háskólann í London og er sem stendur í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands. Í ljóðum sínum skoðar hún gjarnan samspil vistrýni, femínisma, þjóðsagna og stafræns veruleika. Hún skrifar mest ljóð og smáprósa en vinnur einnig við þýðingar og fræðitexta. Verk hennar hafa birts í tímaritum á Íslandi og í Bretlandi, meðal annars í Volupté, SPAM zine, amberflora zine, Skandala, Störu og Pastel ritröð. Auk þessa hefur hún skrifað texta fyrir myndlistarsýningar og gjörninga í Þýskalandi. 

Sölvi Halldórsson lærði íslensku og dönsku við Háskóla Íslands og skrif eftir hann hafa birst í Lestinni á Rás 1, Leirburði, Pastel ritröð og Tímariti Máls og menningar. Síðasta útgefna verk hans er ljóðasafnið Eplaástøðið endurskoðað/Udvidet kartoffelteori/Kartöflukenningin endurskoðuð, samvinnuverkefni færeysk-dansk-íslenska ljóðakollektífsins DISKO!F. Um þessar mundir vinnur Sölvi aðallega með styttri form, ljóð, örsögur og pistla.

Daníel Daníelsson er meistaranemi í ritlist með BA-gráðu í sagnfræði og nýbakaður pabbi. Á yngri árum fluttist hann landshorna á milli með fjölskyldu sinni og þykist í dag vera orðinn borgari í Reykjavík -  hvernig honum mun takast til með það verður að koma í ljós. Daníel var meðhöfundur í fræðibókinni Þættir af sérkennilegu fólki (2021) og sama ár var jólasagan „Hungurmorða“ gefin út í örsagnaritinu Grautur (2021) ásamt 31 öðrum höfundum. Þáttahandrit var unnið upp úr hugmynd hans og framleitt af Sagafilm í heimildaþáttaröðinni Fullveldisöldin (2018). Árið 2019 stofnaði Daníel til myndlistarsýningar í samstarfi við Myndlistaskólann í Reykjavík sem bar heitið Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld og var til sýnis víðsvegar um landið. Eftir ritlistarnámið hefur Daníel hug á að halda út í nám erlendis til að læra að skrifa kvikmyndir, tölvuleiki og sjónvarpsþætti.

Berglind Erna Tryggvadóttir er myndlistarkona og rithöfundur. Hún lærði í Rotterdam, Reykjavík, Mexíkóborg og París og hefur haldið sýningar á hinum ýmsu stöðum en býr nú og starfar í Reykjavík. Samhliða skrifum og myndlistarstörfum hefur Berglind einnig fengist við útvarpsþáttagerð og þýðingar.

Í verkum sínum skoðar hún hið mannlega og hið hversdagslega, veltir fyrir sér verðmætinu í litlu hlutunum og stuttu samtölunum, í bland við stóra spurningar um tilveru og tjáningu.