Upplestur á degi íslenskrar tungu

09/11 2023

Nemendur í framhaldsnámi í ritlist við Háskóla Íslands ætla að lesa upp úr verkum sínum, útgefnum eða í vinnslu, á degi íslenskrar tungu 16. nóvember næstkomandi.

Höfundarnir eru þau Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Vala Hauksdóttir og Daníel Daníelsson.

Birgitta Björg er 25 ára skáld frá Reykjavík. Hún yrkir til jafns prósa og ljóð og hefur birt hvorutveggja, t.a.m í tímaritinu Leirburði. Hún sent frá sér eina skáldsögu, Skotheld (2018). Birgitta er meðlimur hljómsveitarinnar Ólafur Kram sem sigraði Músíktilraunir 2021 og hefur síðan gefið út tvær plötur, nefrennsli / kossaflens (2021) og Ekki treysta fiskunum (2022). Hljómsveitin hefur spilað á hinum ýmsu sviðum landsins og vinnur nú að sinni þriðju plötu. Þess má geta að Birgitta er einn textahöfunda hljómsveitarinnar.

Vala Hauksdóttir er gömul sál með áhuga á íslenskri tungu, náttúru og landsbyggðarmenningu, sem tekst að lauma sér inn í allar hennar skáldskapartilraunir. Hún hefur unnið texta fyrir fræðsluskilti, ferðavefsíður eða skýrslur tengdar ferðaþjónustu og byggðaþróun. Hún ætlar þó að róa á önnur mið og les upp úr verkum í vinnslu.

Daníel Daníelsson er sagnfræðingur og tilraunaskáld og hefur nýverið sent frá sér sína fyrstu ljóðabók, Ég get ekki hætt að hugsa um Rithöfundasamband Íslands, sem vakti nokkra athygli fyrir frumleika sinn. Bókin byggist á þráhyggjukenndu stefi ljóðmælanda um að geta ekki hætt að hugsa um „Rithöfundasamband Íslands,“ „Lífdauða plánetunnar,“ „Storytel,“ og svo framvegis og má segja að bókin sé bæði full af húmor og þungum alvarleika nútímamanns. Daníel mun lesa upp úr nýja verkinu.

Viðburðurinn hefst kl 17:00 og stendur í klukkustund. Frítt er inn og öll velkomin!