Hefð hefur skapast fyrir því á Gljúfrasteini að bjóða rithöfundum og þýðendum að lesa upp úr nýútkomnum verkum sínum á safninu í aðdraganda jóla. Sextán höfundar og þýðendur koma fram að þessu sinni og verður lesið upp úr verkum af ýmsum toga; ljóðum, skáldsögum, smáprósum og þýddum verkum.
Þeir höfundar sem munu ríða á vaðið sunnudaginn 30. nóvember nk. eru þau Guðbergur Bergsson, Guðrún Guðlaugsdóttir, Hjörtur Marteinsson og Sigurbjörg Þrastardóttir. Öll hafa þau sent frá sér ný skáldverk á árinu; Guðbergur skáldsöguna Þrír sneru aftur, Guðrún glæpasöguna Beinahúsið, Hjörtur ljóðabókina Alzheimer tilbrigðin og Sigurbjörg ljóðabókina Kátt skinn (og gloría).
Aðventuupplestrarnir hefjast sem fyrr segir sunnudaginn 30. nóvember en þeim lýkur þann 21. desember.
Dagskráin hefst stundvíslega kl. 16:00. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Hér má nálgast dagskrá aðventuupplestra Gljúfrasteins í heild sinni.