Upplestrar á jólabókunum byrja næsta sunnudag

20/11 2012

Skáldið áritar bækur sínar fyrir eftirvæntingarfulla lesendur.

Nú er skammdegið farið að færast yfir og eflaust margir farnir að líta hýru auga til aðventunnar þegar kuldinn er við það að verða fólki um megn. Einn ávallt velkominn fylgifiskur jóla og aðventu eru jólabækurnar sem þegar eru farnar að prýða borð bókaverslananna. Á Gljúfrasteini hefur það tíðkast frá opnun safnsins að fá nokkra þeirra höfunda sem eiga nýjar bækur í jólabókaflóðinu til þess að lesa úr bókum sínum. Árið í ár er engin undantekning og framundan eru því kjörin tækifæri til að taka sér hvíld frá jólaamstrinu, koma sér vel fyrir í hlýjunni í stofunni á Gljúfrasteini og hlusta á uppáhaldshöfundinn sinn gefa sýnishorn af því sem koma skal. Höfundarnir í ár eru ekki af verri endanum en listann má sjá hér fyrir neðan. Upplestrarnir eru á sunnudögum á Gljúfrasteini kl. 16.00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir meðan húsrúm endist.

Dagskráin er eftirfarandi:

 

25. nóvember
Kristín Marja Baldursdóttir - Kantata
Steinunn Sigurðardóttir - Fyrir Lísu
Kristín Ómarsdóttir - Milla
Bjarni Gunnarsson - Bíldshöfði

2. desember
Gyrðir Elíasson - Suðurglugginn
Dagur Hjartarson - Þar sem vindarnir hvílast
Sigurbjörg Þrastardóttir - Stekk
Gerður Kristný - Strandir

9. desember
Eiríkur Örn Norðdahl - Illska
Þórarinn Eldjárn - Hér liggur skáld
Auður Ava Ólafsdóttir - Undantekningin
Auður Jónsdóttir - Ósjálfrátt

16. desember
Stefán Pálsson - ð ævisaga
Vilborg Davíðsdóttir - Vígroði
Huldar Breiðfjörð - Litlir sopar
Kristín Steinsdóttir - Bjarna-Dísa