Túngan

15/11 2019

Halldór við lestur í skrifstofu sinni á Gljúfrasteini.

Í tilefni Dags íslenskrar tungu eru eftirfarandi gullkorn frá skáldinu dregin fram 

Túngan er ein þeirra sameigna sem gerir oss að einni þjóð, hver sem aðstöðumunur vor í lífinu kann að vera að öðru leyti. Um túnguna er því líkt farið og flesta aðra þætti er skapa þjóð, að um hana er erfitt að nota lýsíngarorðin stór og smár.
Dagur í senn. Stórþjóðir og smáþjóðir. 1953.

Meiripartur þess skáldskapar sem venjulegur íslendíngur inndrekkur með móðurmjólkinni, og man leingst, eru vísur og stef eftir ónafngreind skáld, brot úr þjóðarskáldskap sem einginn veit höfund að, en er venjulega djúpur á einfaldan hátt, skemtilegur í orðalagi og af slíkum hagleik saman settur að þar verður hvergi orði umþokað til bóta; þessi skáldskapur er í sérhverri kynslóð einlægt jafnnýr og úngur og góður, líkur þeim dýrgrip sem fer í björg og brotnar ekki, fer í eld og brennur ekki, fer í sjó og sökkur ekki.
Gjörníngabók. Fram Hvítársíðu. 1954.  

Ísland hættir ekki að vera það sem það er, og við hættum ekki að vera Íslendingar, þó við séum farnir að yrkja öðruvísi en við gerðum á öldinni sem leið. Afturámóti held ég að þann dag sem við hættum að yrkja fyrir fult og fast, þá megi bréfa að hér sé uppvöknuð önnur þjóð en var.
Þjóðhátíðarrolla. Ávarp í minníngu bókmentanna. 1974.

Vér Íslendíngar höfum nú einusinni hlotið þessa hermdargjöf, hið íslenska mál, og það er dýrlegasta menníngarverðmætið sem vér eigum, og ef vér viljum ekki gera eitthvað fyrir snillínga þess, þá eigum vér að flytja héðan burt – alt kraðakið einsog það leggur sig – og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó og fara að tala spænsku.
Af menníngarástandi. Erindi um menníngarmál. 1926.

Höfundurinn verður iðulega að reyna á alt þanþol málsins, leggja á það alt sem það getur borið; en hann má að vísu ekki leggja meira á það.
Vettvángur dagsins. Málið. 1941.