Trítlað um móa með Ferðafélagi barnanna

04/09 2015

Halldór Laxness á gönguferð í Mosfellsdalnum.

Sumri hallar og berin bíða bústin á lyngi rétt utan við borgarmörkin. Ferðafélag barnanna býður upp á skemmtilega laugardagsgönguferð þann 5. september sem nærir bæði líkama og sál og liggur um rómað berjaland og slóðir Halldórs Laxness.

Gengið verður að Helgufossi og síðan niður með Köldukvísl. Þarna fór Halldór Laxness í sína daglegu hressingargöngu meðan hann bjó á Gljúfrasteini. Gönguferðirnar voru honum uppspretta hugmynda. Hvað skyldi göngugörpum detta í hug á leiðinni?

Í lok göngu bregða göngugarparnir sér á safnið á Gljúfrasteini. Þetta er upplagt tækifæri til að kynna skáldið og húsið fyrir yngstu kynslóðinni. Gönguferð og heimsókn í safnið tekur ca. 3 klst.

Ferðin er farin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.

Þátttaka ókeypis og allir velkomnir. Ekkert að panta, bara mæta kl. 11 við Gljúfrastein.

Gestir eru hvattir til að nota bílastæðið framan við Jónstótt við gömlu brúna yfir Köldukvísl. Þá er keyrt upp afleggjarann áður en komið er að Gljúfrasteini, við græna strætóskýlið í Mosfellsdal á móti hestaleigunni í Laxnesi. Sjá hér á korti.