Tónlistarveisla með Elínu Ósk

21/06 2011

Elín Ósk Óskarsdóttir, sópran, og Jónas Þórir, píanóleikari

Sunnudaginn næstkomandi, þann 26. júní munu Elín Ósk Óskarsdóttir, sópran, og Jónas Þórir, píanóleikari koma fram á Gljúfrasteini.  Efnisskráin að þessu sinni er fjölbreytt og inniheldur lög úr óperum á borð við Toscu, söngleikjum meðal annars eftir Gershwin auk þekktra íslenskra dægurlaga.  Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 og aðgangseyrir er 1000 kr. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Elín Ósk Óskarsdóttir hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Rangæinga og lauk einsöngvaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 1984. Aðalkennari hennar var frú Þuríður Pálsdóttir.

Elín Ósk stundaði framhaldsnám á Ítalíu og Englandi en fyrsta óperuhlutverk hennar var Tosca í uppfærslu Þjóðleikhússins 1986. Síðan hefur Elín Ósk sungið fjölda óperuhlutverka innanlands sem erlendis.  Hún hefur fengið fjölda viðurkenninga og tilnefningar fyrir söng sinn, meðal annars á Ítalíu. Árið 2003 fékk hún viðurkenningu á Sverrisdegi fyrir framlag sitt til lista og menningar í Hafnarfirði og árið 2006 var Elín Ósk gerð að Bæjarlistamanni Hafnarfjarðar.

Elín Ósk hefur einnig sungið óratoriur og messur bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur sungið inn á hljómdiska og haldið fjölda einsöngstónleika. Í tilefni af 20 ára söngafmæli hennar 2006 kom út hljómdiskur með aríum sem hún söng ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky. Einnig söng hún ásamt fleirum við stórtónleika í Langholtskirkju vegna afmælisins auk þess sem hún fór í samstarf við Íslensku óperuna á óperunni Cavalleria Rusticana ásamt Óperukór Hafnarfjarðar, en það er kór sem Elín Ósk stofnaði árið 2000 og hefur verið aðalstjórnandi síðan. Í þeirri uppfærslu söng hún aðalhlutverkið Santuzzu.

Á nýársdag 2009 hlotnaðist henni sá heiður að vera sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands  fyrir framlag sitt til íslensks tónlistar- og menningarlífs.

Jónas Þórir er fæddur í Reykjavík, sonur hjónanna Jónasar Þóris Dagbjartssonar fiðluleikara og Ingridar Kristjánsdóttur píanókennara.

Hann varð stúdent frá MR 1976. Hann lærði á fiðlu hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara í 7 ár.  Hann lærði einnig á píanó hjá Halldóri Haraldssyni og á orgel hjá Marteini H. Friðrikssyni, Herði Áskelssyni og Birni Steinari Sólbergssyni. Tónsmíðar nam hann hjá Atla Heimi Sveinssyni og lauk Tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1984.  Organistaprófi og Kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar lauk hann 2001 og nam hjá Karsten Askeland dómorganista og kennara við Grieg Akademíuna í Bergen.

Jónas Þórir hefur spilað með helstu söngvurum og hljóðfæraleikurum þjóðarinnar við ýmis tækifæri, bæði á upptökum og á tónleikum. Hann hefur leikið inn á 45 Cd diska með ýmsum listamönnum og séð um tónlist við fjöldamörg leikrit og sjónvarpsþætti. Einnig hefur Jónas Þórir útsett og samið lög og tónverk við hin ýmsu tækifæri. Til dæmis samdi hann 2 hljómsveitarstykki fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands á Kristnihátíðarárinu 2000 og stjórnaði henni við Kristnihátíðina í Mosfellsbæ og í Hafnarfirði.

Jónas Þórir er kantor og kórstjóri hjá Bústaðarkirkju og kennari við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

 

Dagskrá stofutónleika á Gljúfrasteini má finna hér