Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari og Eva Þyrí Hilmarsdóttir, píanóleikari munu koma fram á stofutónleikum á Gljúfrasteini næsta sunnudag, þann 17. júlí. Dagskráin í þetta skiptið er ekki af verri endanum því þar má finna klassísk verk fyrir píanó og flautu, allt frá sónötu eftir Bach að Svartþrestinum eftir Messaien. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og aðgangseyrir er 1.000 kr. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Hafdís Vigfúsdóttir hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B.Mus. gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega Konservatoríinu í Haag, sem og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi. Aðalkennarar Hafdísar gegnum tíðina hafa verið þau Guðrún Birgisdóttir, Martial Nardeau, Philippe Pierlot og Juliette Hurel. Í apríl 2010 vann Hafdís til annarra verðlauna í alþjóðlegri flautukeppni, Le Parnasse, í París. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Hún er ein skipuleggjenda Tónlistarhátíðarinnar BERGMÁL á Dalvík sem verður haldin öðru sinni í ágústbyrjun 2011. Haustið 2011 hefur Hafdís mastersnám við Tónlistarháskólann í Osló.
Eva Þyri Hilmarsdóttir stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music í London og útskrifaðist síðastliðið sumar með láði, hlaut DipRAM og The Christian Carpender Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Aðalkennari hennar þar var Michael Dussek.
Hún hóf píanónám 11 ára gömul hjá Þorsteini Gauta Sigurðssyni og lærði svo hjá Halldóri Haraldssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk þaðan Píanókennaraprófi og Burtfararprófi. Hún lauk síðar Diplomeksamen og Einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Árósum undir handleiðslu John Damgaard og hefur m.a. komið fram sem einleikari með hljómsveit auk einleiks-, kammer- og ljóðatónleika víðs vegar um Evrópu.
Dagskrána fyrir stofutónleika Gljúfrasteins árið 2011 má finna hér.