Tímarit Máls og menningar kom út á dögunum og er að þessu sinni að miklu leyti helgað Halldóri Laxness. Á forsíðu er myndin HKL í Hollywood sem Hallgrímur Helgason, myndlistarmaður og rithöfundur, teiknaði. Tilefnið er að um þessar mundir eru hundrað ár liðin síðan fyrsta skáldsaga Halldórs, Barn náttúrunnar kom út en þá var hann aðeins sautján ára gamall.
Meðal efnis í Tímariti Máls og menningar að þessu sinni er grein eftir Ástu Kristínu Benediktsdóttur þar sem hún skoðar hinseginleikann í bókinni Vefarinn mikli frá Kasmír og þátt Halldórs Laxness í hinsegin bókmenntasögu. Þá fjallar Haukur Ingvarsson um mark 20. aldarinnnar á Barni náttúrunnar. Í heftinu eru einnig ljóð og smásögur eftir sex unga höfunda sem tóku þátt í textasamkeppni menntaskólanema en allir eru þeir fæddir á árunum 1999-2003 og því á svipuðum aldrei og Halldór þegar hann skrifaði Barn náttúrunnar.
Tímaritið verður til sölu í safnbúðinni á Gljúfrasteini.