Innansveitarkronika kom út árið 1970 og er næstsíðasta skáldsaga Halldórs Laxness. Í fyrra voru liðin fimmtíu ár frá því að bókin kom út. Síðasta sumar var sett upp sýning í móttökuhúsi safnsins og stendur sýningin enn yfir. Þórunn Elísabet Sveinsdóttir er hönnuður sýningarinnar þar sem stillt hefur verið upp hinum ýmsu munum. Hlíf Una Bárudóttir teiknaði jafnframt myndir á einn af veggjum móttökunnar með skírskotun í söguna.
Titill bókarinnar vísar til glímunnar við söguformið en krónika er fornt heiti á frásögn sem ekki lýtur sögumanni heldur rekur atburði eins og þeir raunverulega gerðust. Sagan gerist í Mosfellsdalnum þar sem Halldór Laxness ólst upp. Hann nýtir sér raunverulega atburði sem gerðust frá 1880 og fram á fimmta áratuginn og spinnur sögu í kringum kostulegar deilur sóknarbarna um kirkjubyggingu. Raunar má segja að sagan endurspegli sögu Íslands, allt frá hetjuskap fornaldar til þeirra miklu tímamóta sem heimsstyrjöldin síðari markaði í lífi þjóðarinnar. Frásagnaraðferð Halldórs er í ætt við Íslendingasögur en með því að segja söguna eins og króniku leitast hann við að ná sem mestri hlutlægni og láta sögumanninn hverfa. Hvert orð vegur þungt, hverjum atburði lýst án óþarfa orðaskaks.
Vefurinn Innansveitarkronika markaði tímamót í útgáfu á verkum Halldórs Laxness þegar hann var opnaður í apríl 2015. Með opnun vefjarins gafst notendum í fyrsta sinn kostur á að lesa bókina í heild sinni sem rafbók, hlusta á upplestur skáldsins og afla sér fróðleiks um sögusviðið og sögupersónur. Upphaflegt markmið verkefnisins var einnig að miðla skáldverki eftir Halldór Laxness á nýstárlegri hátt en áður hafði verið gert og varpa ljósi á tengsl verka hans við heimasveit skáldsins, Mosfellssveit.
Upplestrar skáldsins eru aðgengilegir inná vefsvæði Rúv.