Svavar Knútur á Safnanótt 11. febrúar á Gljúfrasteini

10/02 2011

Svavar Knútur

Gljúfrasteinn býður gesti velkomna á Safnanótt í Mosfellsdalnum. Húsið er opið milli kl. 19-24 og aðgangur ókeypis. Safnanæturstrætó gengur upp að Gljúfrasteini. Hann leggur af stað frá Kjarvalsstöðum kl. 20 og snýr aftur til Reykjavíkur kl. 22. Þessi strætó er tilvalinn fyrir þá sem vilja heimsækja Mosfellsdalinn og hlusta á tónleika með Svavari Knúti sem hefjast í stofu Gljúfrasteins klukkan 21.

Svavar Knútur hefur gefið út fjórar plötur síðustu árin sem allar hafa hlotið frábærar viðtökur. Árið 2007 kom út platan I can’t believe it’s not happiness, árið 2008 Silent treatment, Kvöldvaka kom út árið 2009 og platan Amma árið 2010. Svavar Knútur hefur notið vaxandi virðingar og velgengni á Íslandi sem erlendis og lagt land undir fót undanfarin ár. Á síðasta ári fór hann í tvær stórar tónleikaferðir, eina til Evrópu þar sem hann hélt 21 tónleika í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu og Sviss, og hina til Ástralíu þar sem hann hélt 40 tónleika. Árið 2009 tróð hann upp með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Í ár er Safnanótt tileinkuð hugmyndinni „Íslendingur?“ Í tilefni af því hefur Gljúfrasteinn sett upp litla sýningu á íslenskum og erlendum útgáfum af Sjálfstæðu fólki sem þýdd hefur verið á um 30 tungumál. Halldór skrifaði einmitt seinna um Bjart í Sumarhúsum að hann væri „eini íslendíngurinn sem allir skilja, af því hann er til í öllum löndum.“
Gljúfrasteinn býður svo gestum að draga úr skál tilvitnanir í verk Halldórs um Ísland og Íslendinga til að taka með sér heim og íhuga.

Aðgangur að Gljúfrasteini á Safnanótt, föstudaginnn 11. febrúar, og helgina 12.-13. febrúar er ókeypis. Gljúfrasteinn tekur þátt í Safnanæturleiknum þar sem í boði eru veglegir vinningar.

Á síðustu Safnanótt var metaðsókn á Gljúfrasteini, en þá spilaði KK fyrir fullu húsi. Hér má sjá myndband af þeim tónleikum.