Sumarsaga Víðsjár er Atómstöðin

14/06 2014

Atómstöðin 1948

Sumarsaga menningarþáttarins Víðsjár á rás 1 er að þessu sinni Atómstöðin eftir Halldór Laxness en fyrsti lestur verður mánudaginn 16. júní.

Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom út árið 1948 enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi.

Íslandsklukkan, sem Halldórs Laxness sendi frá sér næst á undan Atómstöðinni, var fyrsta skáldsaga hans sem naut almennrar hylli íslenskra lesenda en nú vakti hann deilur á ný þar sem hann tók á afar viðkvæmu efni: „sölu landsins“ eða „þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi“, eftir því hvar menn skipuðu sér í fylkingar í málefnum Keflavíkurstöðvarinnar.

Atómstöðin segir frá Uglu, bóndadóttur að norðan, sem kemur til Reykjavíkur að læra á orgel. Hún ræður sig í vist hjá Búa Árland, sem er þingmaður og heildsali, og sækir tónlistartíma hjá Organistanum. Inn í söguna blandast meðal annars samningar um bandaríska herstöð í Keflavík, auk flutnings á beinum Jónasar Hallgrímssonar frá Danmörku til Íslands en í bókinni er hann kallaður Ástmögur þjóðarinnar. Búi er einn þeirra valdhafa sem taka þátt í beinamálinu og sölu landsins. Þannig fléttar Halldór ýmis viðkvæm hitamál úr samtímanum inn í söguna. Ævinlega hefur verið litið svo á að Organistinn eigi sér fyrirmynd í Erlendi í Unuhúsi en fremst í Atómstöðinni ritar höfundurinn: „Þessi bók er samin í minníngu Erlends í Unuhúsi en honum á ég flest að þakka.“