Stofutónleikaröð sumarsins að hefjast

26/06 2020

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari ýtir tónleikaröð sumarsins úr vör með sellóleik sínum sunnudaginn 28. júní kl. 16. 

Stofutónleikar Gljúfrasteins verða haldnir hvern sunnudag frá 28. júní til 30. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2500. Ókeypis er fyrir börn á leiskólaaldri.

Að þessu sinni sá Hilma Kristín Sveinsdóttir um skipulagninu tónleikaraðarinnar. Athugið að ekki er hægt að bjóða uppá sæti með tveggja metra fjarlægðarreglu.

Hér fyrir neðan má sjá dagskrá stofutónleikanna í heild sinni.

28. júní Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari leikur meistaraverk fyrir einleiksselló eftir J.S. Bach og Hafliða Hallgrímsson.

5. júlí Hljómsveitin AdHd flytur tónlist sína í stofunni. Hljómsveitin gaf frá sér sína sjöundu breiðskífu í fyrra, ADHD 7 og hefur hún hlotið mikið lof.

12. júlí  Magnús Jóhann og Skúli Sverrisson hafa komið víða við í sinni tónlistarsköpun, sem flytjendur, höfundar og úsetjarar, en koma nú fram sem tvíeyki. Þeir munu leika verk Magnúsar sem hann samdi sérstaklega fyrir flutning tvíeykisins.

19. júlí  Hipsumhaps, bjartasta von þjóðar, mun halda létta tónleika á heimili skáldsins. Þeir munu taka öll lögin sem þig langar til að heyra í takt við spjall og vangaveltur um daginn og veginn.

26. júlí  Tríó lúðrasveit skipa Arngunnur Árnadóttir, klarínettuleikari, Björg Brjánsdóttir flautuleikari og Bryndís Þórsdóttir fagottleikari. Þær hafa leikið saman við ýmis tækifæri, meðal annars í Sinfóníuhljómsveit Íslands, en kveikjan að stofnun hópsins er hrifning meðlima á lúðrasveitarfyrirbærinu. Á tónleikum tríósins verður tónlist Debussys í forgrunni.

2. ágúst  Sigrún syngur og leikur lög sín í áður óheyrðum útgáfum. Tónlist hennar sem er vanalega mjög rafdrifin verður í akústískum búningi í stofunni en meðal annars verður leikið á nýsmíðað steinaspil.

9. ágúst  Viibra flautuhópurinn var stofnaður við gerð plötu Bjarkar, Útópíu. Hópurinn hefur spilað sig saman undanfarin fjögur ár í nokkrum heimsálfum og tekið að sér fjölbreytt verkefni sem tónlistarhópur. Á efnisskránni eru verk eftir Þuríði Jónsdóttur, Berglindi Maríu Tómasdóttur, Hilmu Kristínu Sveinsdóttur og Björk Guðmundsdóttur.

16. ágúst  Hallveig Rúnarsdóttir og Árni Heimir Ingólfsson flytja lög Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Halldórs Laxness í bland við lög eftir Stephen Sondheim og Francis Poulenc.

23. ágúst   Anna Gréta Sigurðardóttir píanóleikari verður á einlægu nótunum og spilar og syngur sín uppáhaldslög á lágstemmdum einleikstónleikum í stofunni. Sígrænar jazzperlur amerísku söngvabókarinnar í bland við eigið, áður óflutt efni.

30. ágúst  Hljómsveitin GÓSS býður í ljúfa stund í stofunni.