Nú er tónleikasumarið gengið í garð á Gljúfrasteini í allri sinni dýrð.
Stofutónleikar verða haldnir á Gljúfrasteini alla sunnudaga kl. 16 í júní, júlí og ágúst þar sem einvalalið tónlistarfólks mun stíga á stokk. Tónleikarnir hafa verið fastur liður á safninu frá árinu 2006, en í tíð Halldórs og Auðar voru reglulega haldnir tónleikar í stofunni þar sem innlent og erlent tónlistarfólk lék listir sínar. Vestfjarðarokkarinn og hjartaknúsarinn Mugison ríður á vaðið á fyrstu tónleikum sumarsins þann 5. júní. Miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika og næg bílastæði eru við Jónstótt.
Sjáumst á Gljúfrasteini í sumar!