Stofutónleikar á Gljúfrasteini hafa um árabil verið vel sóttir og gestir þeirra verið ákaflega ánægðir með upplifunina. Sérstaklega hefur verið minnst á þá einstöku nálægð sem skapast milli gesta og tónlistarfólks og hversu notalegt það sé að sitja í stofunni og hlýða á lifandi tónlist. En það er einmitt þessi nálægð sem hefur gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að halda tónleika í stofunni í heimsfaraldri. Það er því afar ánægjulegt að geta tilkynnt að búið er að skipuleggja tónleika í stofunni næstu fimm sunnudaga. Í stað stofutónleika sem vanalega eru á sumrin verður því boðið upp á haust- og vetrartónleika á Gljúfrasteini.
Fyrstu tónleikarnir í stofunni eru sunnudaginn 10. október.
Þá flytja Tómas R. Einarsson og Ragnhildur Gísladóttir lög af plötunni Ávarp undan sænginni. Með þeim spila Ómar Guðjónsson á gítar og Davíð Þór Jónsson á píanó. Á þessari nýju plötu verða tíu lög við kvæði íslenskra skálda og eru helstu umfjöllunarefnin, ást og söknuður. Tvö lög eru þar við ljóð eftir Halldór Laxness; Þú kysstir mína hönd og Stríðið ort í orðastað Bjarts í Sumarhúsum. Platan er komin út á geisladiski og er á Spotify og öðrum tónlistarveitum auk þess sem vínilplata er væntanleg. Titill plötunnar er sóttur í ljóð Kristínar Svövu Tómasdóttur, Ávarp undan sænginni (Blótgælur, 2007)
Viku síðar, sunnudaginn 17. október flytur flautuhópurinn viibra verk eftir Þuríði Jónsdóttur, Björk Guðmundsdóttur, Berglindi Maríu Tómasdóttur, Hilmu Kristínu Sveinsdóttur og Pauline Oliveros. Hópurinn hefur unnið náið saman við gerð plötu Bjarkar Guðmundsdóttur, Útópíu og á ýmsum tónleikaferðalögum í kjölfarið. Á efnisskránni verða tveir frumflutningar, nýjar útsetningar og önnur verk fyrir flautuhópa. Meðlimir viibru eru: Áshildur Haraldsdóttir, Berglind María Tómasdóttir, Björg Brjánsdóttir, Dagný Marinósdóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Sólveig Magnúsdóttir, Steinunn Vala Pálsdóttir og Þuríður Jónsdóttir.
Þriðju stofutónleikarnir verða þegar kominn er vetur samkvæmt dagatalinu en þeir fara fram sunnudaginn 24.október, daginn eftir fyrsta vetrardag. Þá bjóðum við velkomin þau Helgu Bryndísi Magnúsdóttur, píanóleikara og Kristinn Sigmundsson, óperusöngvara.
Síðasta dag mánaðarins, sunnudaginn 31. október leikur bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi fyrir gesti Gljúfrasteins. Ingibjörg Elsa hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og komið fram með mörgu af ástsælasta tónlistarfólki þjóðarinnar, meðal annarra, Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Teiti Magnússyni og Stuðmönnum. Ingibjörg Elsa hefur einnig samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en það var frumflutt í apríl síðastliðnum á vegum Ung-Yrkju sem er verkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónverkamiðstöðvar. Þar að auki kemur Ingibjörg Elsa reglulega fram undir eigin nafni þar sem hún kannar hljóðheim rafmagnsbassans sem er hennar aðalhljóðfæri. Ingibjörg Elsa var tilnefnd til sex verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 og hlaut þrenn verðlaun. Með Ingibjörgu Elsu á tónleikunum á Gljúfrasteini verða Tumi Árnason sem leikur á saxófón, Magnús Tryggvason Eliassen sem leikur á trommur, Hróðmar Sigurðsson sem leikur á gítar og Magnús Jóhann Ragnarsson sem leikur á píanó.
Hallveig Rúnarsdóttir, óperusöngkona og Árni Heimir Ingólfsson, píanóleikari slá lokatóninn á stofutónleikum Gljúfrasteins árið 2021. Tónleikar þeirra fara fram sunnudaginn 7. nóvember. Þau ætla að flytja Laxnesslög Atla Heimis Sveinssonar auk laga eftir Stephen Sondheim og Francis Poulenc. Hér má hlýða á Hallveigu og Árna Heimi flytja Les Chemins de l'amour eftir Francis Poulenc í stofu skáldsins. Ákveðið var að taka upp eitt lag sumarið 2021 til að koma til móts við þyrsta tónleikagesti þegar safnið var lokað vegna heimsfaraldurs.
Miðar á alla tónleika eru seldir samdægurs í safnbúðinni á Gljúfrasteini og kosta 3.500 krónur. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.