Stofutónleikar

25/10 2021

Halldór lærði á píanó í æsku. Það síðasta sem Halldór gerði á heimilinu áður en hann fór á sjúkrahús á tíræðisaldri var að spila á flygilinn.

Stofutónleikar á Gljúfrasteini voru á óvenjulegum tíma í ár. Ákveðið var að standa fyrir tónleikum í haust þar sem ekki reyndist fært að halda þá síðasta sumar.

Síðasta dag mánaðarins, sunnudaginn 31. október leikur bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi fyrir gesti Gljúfrasteins. Ingibjörg Elsa hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og komið fram með mörgu af ástsælasta tónlistarfólki þjóðarinnar, meðal annarra, Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Teiti Magnússyni og Stuðmönnum. Ingibjörg Elsa hefur einnig samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en það var frumflutt í apríl síðastliðnum á vegum Ung-Yrkju sem er verkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónverkamiðstöðvar. Þar að auki kemur Ingibjörg Elsa reglulega fram undir eigin nafni þar sem hún kannar hljóðheim rafmagnsbassans sem er hennar aðalhljóðfæri. Ingibjörg Elsa var tilnefnd til sex verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 og hlaut þrenn verðlaun. Með Ingibjörgu Elsu á tónleikunum á Gljúfrasteini verða Tumi Árnason sem leikur á saxófón, Magnús Tryggvason Eliassen sem leikur á trommur, Hróðmar Sigurðsson sem leikur á gítar og Magnús Jóhann Ragnarsson sem leikur á píanó.  

Hallveig Rúnarsdóttir, óperusöngkona og Árni Heimir Ingólfsson, píanóleikari slá lokatóninn á stofutónleikum Gljúfrasteins árið 2021. Tónleikar þeirra fara fram sunnudaginn 7. nóvember. Þau ætla að flytja Laxnesslög Atla Heimis Sveinssonar auk laga eftir Stephen Sondheim og Francis Poulenc.  Hér má hlýða á Hallveigu og Árna Heimi flytja Les Chemins de l'amour eftir Francis Poulenc í stofu skáldsins.  Ákveðið var að taka upp eitt lag sumarið 2021 til að koma til móts við þyrsta tónleikagesti þegar safnið var lokað vegna heimsfaraldurs.

Miðar á alla tónleika eru seldir samdægurs í safnbúðinni á Gljúfrasteini og kosta 3.500 krónur.