Ástir, örlög og náttúran

23/08 2011

Þóra Passauer, kontra alt, Birna Hallgrímsdóttir, píanóleikari og Ásdís Hildur Runólfsdóttir, víóluleikari.

Síðustu stofutónleikar sumarsins verða haldnir á Gljúfrasteini næstkomandi sunnudag, þann 28. ágúst.  Það eru Þóra Hermannsdóttir Passauer, söngkona, Birna Hallgrímsdóttir, píanóleikari og Ásdís Hildur Runólfsdóttir víóluleikari sem ljúka tónleikaröðinni þetta árið.  Þær munu flytja ljóð eftir Brahms þar sem náttúran, ástir og örlög eru í fyrirrúmi.  Ljóðasöngur byggist að miklu leyti á samspili textans og tónlistarinnar og því verður textunum dreift á staðnum, íslenskuðum af Reyni Axelssyni. Tónleikarnir hefjast að venju klukkan 16.00 og aðgangseyrir eru 1.000 krónur.  Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

 

Ásdís Hildur Runólfsdóttir útskrifaðist sem fiðlukennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún fór í framhaldsnám í víóluleik, fyrst til Þýskalands og svo til Hollands.

Hún hefur frá 1987  verið fastráðinn kennari við Tónlistarskóla Kópavogs og auk þess starfað sem víóluleikari  og leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Hljómsveit Íslensku Óperunnar, Bachsveitinni í Skálholti og ýmum minni hópum.

Birna Hallgrímsdóttir er fædd árið 1982, hún hóf píanónám fimm ára gömul og stundaði nám við Tónlistarskóla íslenska Suzuki sambandsins og Tónlistarskóla Kópavogs. Haustið 2002 hóf Birna nám í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Mate en varði haustönn 2005 sem skiptinemi við Savonia polytechnic í Kuopio í Finnlandi þar sem kennari hennar var Kirsti Huttunen.

Vorið 2006 lauk Birna B.mus gráðu frá Listaháskóla Íslands.

Í nóvember sama ár hlaut Birna önnur verðlaun í epta píanókeppninni á Íslandi og í desember var henni veitt innganga í Royal College of Music í London. Þar stundaði hún nám hjá Ian Jones og Gordon Fergus-Thompson og lauk mastersnámi í júlí 2009. Veturinn 2009-2010 bjó Birna í Stavangri í Noregi þar sem hún stundaði nám hjá Hakon Austbo.

Birna lék debut tónleika sína í Salnum í Kópavogi í júní 2009, einnig hefur hún nýlega haldið sólótóleika í Stokkalæk, í tónleikaröðunum Tónar við hafið og í tónleikaröð Háskóla Íslands auk þess að hafa leikið píanókonsert Griegs með sinfóníuhljómsveit ungafólksins sl. nóvember. Birna er Bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2011 og hlaut Menningarstyrk Visa og styrk frá Minningarsjóði Karls Sighvatssonar  árið 2009. Þá hefur Birna tvívegis verið styrkþegi Minningarsjóðs Birgirs Einarssonar apótekara og Minningarsjóði Margrétar.

Birna hefur spilað í masterklössum m.a. hjá Ann Schein, Nelitu True, Ian Hobson, Matti Reikallio, Stephan Houg, Einar-Steen Nokleberg og Staffan Scheja.

Birna hefur tekið þátt í alþjóðlegum píanókeppnum, masterklössum og tónlistarhátíðum og komið fram víðsvegar í Evrópu.

Þóra Hermannsdóttir Passauer hóf hún ung að aldri nám við Söngskólann í Reykjavík og naut leiðsagnar Valgerðar Jónu Gunnarsdóttur og Guðmundar Jónssonar. Þaðan lá leiðin í FÍH hvaðan hún lauk burtfararprófi í klassískum söng árið 2000 undir leiðsögn Bjarkar Jónsdóttur og Jóhönnu Linnet. Þóra hefur sótt einkatíma í söng hjá Jóni Þorsteinssyni , Laufeyju Geirsdóttur og Kristjáni Jóhannssyni auk þess að hafa sótt ýmis söngnámskeið, m.a. hjá Sigurði Demetz, Sólrúnu Bragadóttur og Jóni Þorsteinssyni. Samfara söngnáminu hefur Þóra verið virkur þátttakandi í kórum, þ.á.m. Söngsveitinni Fílharmóníu, Kvennakór Reykjavíkur og Vox Academica. Þóra hefur tekið þátt í Menningarnótt tvö síðustu ár og flutt ljóðaflokkinn Zigeunerlieder eftir Brahms og Kindertotenlieder eftir Mahler auk aría úr þekktum óperum. haldið hádegistónleika á Kjarvalsstöðum 2010 með aðalþema norræn ljóð og síðast flutt ljóð og aríur með Vox academica á vortónleikum kórsins í apríl 2011.