Fimmtudaginn 13. maí n.k. (Uppstigningardag) kl. 11-14 fer fram vígsla stikaðra gönguleiða um útivistarsvæði í Mosfellsbæ sem er verkefni sem skátafélagið Mosverjar hafa unnið í samstarfi við Mosfellsbæ. Fyrsta áfanga verksins er lokið en ætlunin er að stika alls um 65 km en auk þess að setja upp vegpresta við vegamót og upplýsingaskilti við gönguleiðirnar.
Í nágrenni Gljúfrasteins eru stikaðar gönguleiðir og fræðsluskilti og fleiri munu bætast við á næstunni.
Göngukort sem hefur verið prentað verður fyrirliggjandi ókeypis á íþróttamiðstöðvunum að Varmá og Lágafelli og einnig í bókasafni Mosfellsbæjar. Einnig verður hægt að nálgast göngukortið á Gljúfrasteini. Þá er göngukortið ennfremur aðgengilegt á vef Mosverja og á vef Mosfellsbæjar (vinstra megin á forsíðu er flýtihnappurinn Kortasjá þar sem finna má ýmis kort af Mosfellsbæ). Markmiðið með lagningu stikaðra gönguleiða er að auðvelda almenningi aðgang að ósnortinni náttúru útivistarsvæðis Mosfellsbæjar. Þar eru margar náttúruperlur og sögulegar minjar sem sagt verður frá á sérstökum fræðsluskiltum sem verða sett upp í tengslum við verkefnið.Göngufólk er hvatt til að nýta sér stikuðu gönguleiðirnar og göngukortið jafnt sumar sem vetur, ganga vel um og njóta útivistarsvæðisins. Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og fór nær daglega í göngutúra. Hentugar gönguleiðir eru til dæmis upp með ánni í átt að eyðibýlinu Bringum og niður með Köldukvísl í áttina að Guddulaug
Dagskrá Mosfellsbæjar og Mosverja á uppstigningardag má sjá hér.