Þann 21. október síðastliðinn fjallaði Vésteinn Ólason um Stefán Einarsson prófessor og bókmenntarannsóknir hans á Rás 1. Þar kemur meðal annars fram að í kringum 1930 vann Stefán að ævisögu Halldórs Laxness. Þó svo að sú bók kæmi aldrei út notaði Stefán efni þaðan í fyrirlestra, greinar og kafla í yfirlitsritum auk þess að efnið varð grunnur að þroskasögu Halldórs og notað í seinni tíma ritun á ævi Halldórs.
Stefán og Halldór skrifuðust á og eru bréfin varðveitt á Landsbókasafninu. Í löngu bréfi sem Stefán skrifar 8. ágúst 1935 segir hann m.a. „Til þess að gefa þér einhverja hugmynd um álit mitt eða skilning frá psycoanalyt. sjónarmiði skal eg geta þess, að mér virðist þú vera typiskt dæmi upp á mann með inferiority complex sem snýst upp í hið hatrammasta masculine protest sem hugsast getur og gerir þig að geníi.“
Þáttinn í heild sinni má finna á Sarpi en hann verður einnig endurtekinn á morgun, miðvikudag.
Nýverið var sýning um Stefán á Landsbókasafni. Smári Ólason hélt ræðu við það tilefni.