Þegar gengið er inn í anddyrið á Gljúfrasteini blasir við standklukka. Sú klukka á sér langa sögu. Hún er smíðuð af James Cowan sem var einn fremsti klukkusmiður í Edinborg í Skotlandi frá miðri átjándu öld þar til hann lést 1781. Líkast til kom klukkan með samferðamönnum Jörundar Hundadagakonungs 1809. Kaupandinn var Ísleifur Einarsson dómari við landsyfirréttinn en hann var bróðir langalangömmu Halldórs. Á nítjándu öldinni fór klukkan víða en Halldór sá hana fyrst hjá ömmusystur sinni í Melkoti sem stóð við suðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík. Í Mosfellsdalinn kom klukkan 1915 þegar Magnús í Melkoti, mágur Guðnýjar ömmu Halldórs, flutti í Laxnes þá orðinn ekkill. Árið 1916 skrifaði Halldór grein um klukkuna í Morgunblaðið þar sem hann rakti sögu hennar. Hjónin í Melkoti urðu síðar fyrirmyndir að afa og ömmu Álfgríms, aðalpersónu Brekkukotsannáls, en þar er lýst standklukku sömu gerðar og var í Melkoti með þessum orðum: “Þessi klukka tifaði hægt og virðulega, og mér bauð snemma í grun að ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér einsog ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar sig, en sekúndurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru eins og kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að standa þó kyr.”