Spilmenn Ríkínís ríða á vaðið í sumartónleikaröð Gljúfrasteins sunnudaginn 5. júní 2011 kl. 16. Spilmennirnir munu syngja og leika þjóðlög á langspil, hörpu, gígju, gemshorn og symfón. Meðlimir Spilmanna eru Ásta Sigríður Arnardóttir, Halldór Bjarki Arnarson, Marta Guðrún Halldórsdóttir og Örn Magnússon.
Spilmenn Ríkínís er fjölskylduhljómsveit. Æfingar hafa farið fram í borðstofu í vesturbæ Reykjavíkur, en einnig í Garðshorni í Ólafsfirði, á Hólum í Hjaltadal og í Kongegaarden í Korsør í Danmörku. Fyrstu tónleikar Spilmanna Ríkínís voru á tónlistarhátíðinni Berjadögum í ágúst 2006. Þeir hafa síðan komið fram á fjölda tónleika, norðan heiða og sunnan. Viðfangsefni Spilmanna hefur verið flutningur tónlistar úr íslenskum bókum og handritum með hljóðfærum sem vitað er að til voru á Íslandi fyrr á öldum. Hvort tónlistin hljómar eins og þá er alls óvíst, en sá hljómur sem verður til þegar sungið er og leikið á þessi gömlu hljóðfæri kveikir tilfinningu í brjóstinu líkt og sofinn strengur sé sleginn að nýju.
Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.