Kammerhópurinn Stilla flytur tónlist eftir Ottorino Respighi á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag.
Kammerhópurinn Stilla var stofnaður árið 2012 og er skipaður þeim Lilju Eggertsdóttur sópransöngkonu, Sigrúnu Harðardóttur fiðlu, Margréti Soffíu Einarsdóttur fiðlu, Þórunni Harðardóttur víólu og Grétu Rún Snorradóttur selló.
Hópurinn hefur hingað til flutt fjölbreytta efnisskrá og leitast við að flytja verk, íslensk og erlend, sem eru sjaldan flutt en eru þó perlur síns tíma. Hópurinn hefur haldið fjölda tónleika víðsvegar um landið og unnið með ýmsum flytjendum, bæði söngvurum og öðrum hljóðfæraleikurum. Hópurinn hefur flutt tónlist úr öllum áttum; óperutónlist, óperettur, klassíska tónlist, dægurtónlist, auk íslenskrar og erlendrar tónlistar ásamt jazzbandi.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.