Eftir vel heppnaða tónleikaröð sumarsins tekur nú Verk mánaðarins við. Næstkomandi sunnudag, þann 26. september er það „Soffíuhópur“ sem stígur á stokk klukkan 16 og mun flytja dagskrá sem þau kalla Bók nr. 1.
Í Félagsmiðstöðinni Hæðargarði 31 í Reykjavík er afar fjölbreytt félagsstarf. Þar eru myndlistar-, tónlistar- og bókmenntahópar, Tha-chi, bútasaumur, hláturjóga, bridge, gáfumannakaffi, magadans, skapandi skrif, glerskurður, tölvuleiðbeiningar, pútthópur og margt fleira. Æðsta ráð kemur saman reglulega, hugmyndabankinn er alltaf opinn og síðast en ekki síst er starfið opið öllum borgarbúum óháð aldri.
Soffía Jakobsdóttir leikari hefur síðastliðin fimm ár leiðbeint í framsögn í Hæðargarði 31. Undir hennar stjórn hefur orðið til góður hópur fólks sem hefur komið fram mjög víða og flutt upplestrardagskrár t.d. í tilefni afmælis Svövu Jakobsdóttur á vegum Háskóla Íslands, í Þórbergssetri í Suðursveit, Landnámssetrinu í Borgarnesi, Leikhúsinu að Möðruvöllum í Hörgárdal og Kringlubókasafni í Reykjavík. Hópurinn nefnir sig „Soffíuhóp” og hann skipa sjö manns.
Að Gljúfrasteini munu þau flytja dagskrána Bók nr. 1 sem er helguð Halldóri Kiljan Laxness. Sjömenningarnir munu flytja ljóð og texta eftir skáldið.
Síðasta sunnudag í október, nóvember og á næsta ári er svo ætlunin að beina sjónum okkar að stjórnmálaspekingnum Halldóri Laxness og þeirri stjórnmálahugmyndafræði sem birtast í verkum hans, sérstaklega greinunum, en einnig skáldsögum, leikritum og ljóðum. Nánar verður fjallað um það síðar.