Safnanótt sem haldin er í samstarfi við Vetrarhátíð verður haldin föstudaginn 8. febrúar næstkomandi og mun Gljúfrasteinn að sjálfsögðu taka þátt eins og fyrri ár. Opið verður á safninu um kvöldið frá 19-23 og býðst gestum að skoða safnið sér að kostnaðarlausu.
Safnanæturstrætó gengur í öll söfn sem taka þátt og er Gljúfrasteinn engin undantekning. Hingað kemur einn strætó sem fer frá Kjarvalsstöðum kl. 20.00 og fer til baka kl. 22.00. – Dagskrá Safnanæturstrætó
Sú strætóferð hentar vel fyrir þá sem vilja koma og sjá tónleika Snorra Helgasonar á Gljúfrasteini, en hann mun koma fram í stofunni þar kl. 21.00.
Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur á undanförnum árum skapað sér gott orð í tónlistarheiminum bæði innanlands sem utan. Tónlist Snorra er nokkurs konar þjóðlagapoppbræðingur þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni. Á tónleikunum á Glúfrasteini mun hann leika ný lög í bland við eldra efni auk annars.
Aðgangur að Gljúfrasteini á Safnanótt, föstudaginn 8. febrúar er ókeypis og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir
Einnig má minna á að Gljúfrasteinn tekur þátt í Safnanæturleiknum þar sem í boði eru veglegir vinningar. Frekari upplýsingar um hann má nálgast á vef vetrarhátíðarinnar.
Loks má hér fyrir neðan sjá myndband við lag Snorra, Mockingbird, af plötu hans, Winter Sun, sem kom út árið 2011.