Í september stóð Gljúfrasteinn fyrir sýningunni Að öðru leyti eftir ósk skáldsins í Listasal Mosfellsbæjar en henni lauk þann 30. september síðastliðinn. Sýningin var vel sótt og var almenn ánægja með hana á meðal gesta.
Á sýningunni gaf að líta fjölbreytt úrval gripa úr safneign Gljúfrasteins, m.a. merkilega muni úr nótna- og plötusafni Halldórs og Auðar og ljósmyndir frá tónleikum sem haldnir voru á Gljúfrasteini á 6. áratugnum.
Ljósmyndirnar á sýningunni voru teknar þegar Halldór var formaður MÍR sem á þessum árum tók á móti sendinefndum frá Sovétríkjunum. Í sendinefndunum voru tónlistarmennirnir Aram Katsjatúrian, Tatjana Nikolaéva, Pavel Lisistjan, Mstislav Rostropovitsj ásamt fleirum.
Ljósmyndahluti sýningarinnar mun fá framhaldslíf í húsakynnum MÍR á Hverfisgötu í nóvember. En opnun þeirrar sýningar verður nánar auglýst síðar.
Gljúfrasteinn þakkar MÍR, rússneska sendiráðinu á Íslandi, Vinafélagi Gljúfrasteins, Mosfellsbæ og Safnaráði fyrir gott samstarf og stuðning.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af sýningunni.