Skrýtnastur er maður sjálfur í sumar

30.07 2025

Skrýtnastur er maður sjálfur er yfirskrift örsýningar sem opnaði 25. maí í móttöku Gljúfrasteins og mun standa fram í september.   

Á sýningunni getur að líta forvitnileg listaverk, tengd persónu og ímynd Halldórs Laxness. Verkin eru eftir íslenska og erlenda listamenn. Þarna birtist skáldið með augum þeirra, stundum óþekkjanlegur en oftar en ekki þekkjanlegur.  Halldór fékk Nóbelsverðlaunin árið 1955. Í ár eru því 70 ár frá því hann hlaut þessi virtu bókmenntaverðlaun og má sjá vísun í þau tímamót á sýningunni.   

Yfirskrift sýningarinnar vísar í grein Halldórs úr bókinni Úngur eg var, sem kom út árið 1976. Bók Auðar Jónsdóttur, sem hún skrifaði um afa sinn 2016, ber einnig heitið Skrýtnastur er maður sjálfur.  

Nóbelsverðlaun, 2020  
Þorvaldur Jónsson (1984) 
Eigandi verks: Safnasafnið, Svalbarðseyri