Það er kærkomin tilbreyting fyrir bæði kennara og nemendur að komast út fyrir skólastofuna endrum og sinnum og nota jafnvel önnur skilningarvit: fá að snerta, skynja og upplifa hlutina á annan hátt. Frá því að safnið opnaði hafa skólahópar á öllum aldri heimsótt Gljúfrastein. Í þeim fræðast nemendur um verk og störf Halldórs sem rithöfundar ásamt því að fá innsýn í heimilislífið á Gljúfrasteini í tíð Auðar og Halldórs. Boðið er upp á sérsniðnar heimsóknir fyrir hvert og eitt aldursstig. Nauðsynlegt er að bóka skólaheimsóknir en aðgangur er ókeypis.
Við bjóðum félagasamtök, starfsmannahópa og aðra hópa í haustferðum einnig hjartanlega velkomna. Sífellt fleiri félagasamtök og fyrirtæki koma í heimsókn á heimili Nóbelsskáldsins enda er safnið upplagður áningarstaður.
Mosfellsbær og Skátafélagið Mosverjar hafa gefið út kort sem nefnist Gönguleiðir í Mosfellsbæ. Hægt er að hlaða þessu korti niður af vefnum. Þar er að finna fjölbreyttar gönguleiðir og ættu því allir að geta valið sér leið við hæfi. Leiðirnar eru merktar með appelsínugulum stikum, vegprestar hafa verið settir upp á helstu stígamótum og fjöldi fræðslu- og upplýsingaskilta eru við leiðirnar og upphafsstaði þeirra. Hægt er að nálgast gönguleiðakortið í þjónustuveri Mosfellsbæjar en einnig á Gljúfrasteini.
Í nágrenni Gljúfrasteins eru fallegar gönguleiðir en Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenninu enda umhverfið fagurt. Gestir eru hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar í nágrenni hússins sem stendur við ána Köldukvísl og er byggt í landi jarðarinnar Laxness þar sem Halldór ólst upp. Hentugar gönguleiðir eru til dæmis upp með ánni í átt að Helgufossi og eyðibýlinu Bringum og niður með Köldukvísl í áttina að Guddulaug. Halldór segir frá lauginni í einni bóka sinna og taldi vatnið sérlega heilnæmt og ljóst er að ískalt lindarvatnið úr Guddulaug svíkur engan.