Skáldsögur, ljóð og rannsókn á aðventuupplestri

02/12 2015

Gljúfrasteinn að vetrarlagi.

Á aðventuupplestri sunnudaginn 6. desember næstkomandi munu fjórir rithöfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir les úr bók sinni Stúlka með höfuð. Bókin er sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem Þórunn notaði heimildir og skáldlega túlkun til að segja sögu móður sinnar og formæðra.  Þórdís Gísladóttir les úr ljóðabók sinni Tilfinningarök. Ljósi er varpað á líf fólks sem lesandinn telur sig ef til vill kannast við. Hallgrímur Helgason les upp úr Sjóveikur í München. Bókin lýsir örlagavetri í eigin lífi, sínum fyrsta utan föðurlands og móðurhúsa. Soffía Auður Birgisdóttir upp úr Ég skapa þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar. Bókin byggir á margra ára rannsóknum og er yfirgripsmikil heildarútekt á höfundarverki Þórbergs.

Aðventuupplestrarnir þetta árið fóru vel af stað síðastliðinn sunnudag. Mæting var góð og notaleg stemning myndaðist í stofunni.

Upplesturinn hefst stundvíslega klukkan 16.00 og er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Dagskrá  upplestra 3. og 4. í aðventu

13. des
Jón Kalman Stefánsson – Eitthvað á stærð við alheiminn
Kristín Helga Gunnarsdóttir  - Litlar byltingar
Dóri DNA - Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir – Lítil atvik, mikil eftirmál
Linda Vilhjálmsdóttir - Frelsi 

20.des
Kristín Svava Tómasdóttir  - Stormviðvörun
Óskar Árni Óskarsson -  Blýengillinn
Ólafur Ingi Jónsson - Nína Tryggvadóttir
Ólafur Gunnarsson - Syndarinn