Skáldið, taóið og dulspekin

12/10 2021

Á árinu 2021 eru liðin 100 ár frá útgáfu fyrstu íslensku útleggingarinnar á Bókinni um veginn eða Dao De Jing 道德經 eins og hún heitir á frummálinu. Síðan hefur ritið verið þýtt fjórum sinnum til viðbótar, þar af einu sinni úr frummálinu, en þessi fyrsta endursögn eftir bræðurna Jakob J. Smára og Yngva Jóhannesson hefur þó ávallt notið mestrar hylli, líklega einkum og sér í lagi eftir að Halldór Kiljan Laxness skrifaði formála að 2. útgáfu hennar sem út kom fyrir 50 árum eða árið 1971. Í tilefni þessara tímamóta skal efnt til málþings um tengsl verka Halldórs og daoismans (einnig ritað taóismans) sem og dulspeki í víðari skilningi. Í átta erindum verður einkum fjallað um áhrif heimspeki daoismans á verk Halldórs og túlkanir hans sjálfs á hugmyndum hennar en jafnframt verður leitað fanga víðar í íslenskri bókmenntasögu og grafist fyrir um annars konar dulspekileg áhrif á Nóbelsskáldið.

Dagskrá:

10:00-10:30 Jóhann Páll Árnason: Kveiking frá hugskoti: Taóisminn í meðförum Halldórs Laxness

10:30-11:00 Pétur Pétursson: Daoismi og alþýðlegur sósíalismi á Íslandi

11:00-11:30 Bergljót S. Kristjánsdóttir: „yfirstöplun […] heilagra vébanda“. Um pólitík, daóisma og endurnýjun frásagnarinnar í fáeinum verkum Halldórs Laxness

11:30-12:00 Halldór Xinyu Zhang: Að læra ekkert af daoisma

12:00-13:00 Hádegishlé

13:00-13:30 Geir Sigurðsson: „Speki gamals róna“: Túlkun Halldórs Laxness á Bókinni um veginn í ljósi nútímakenninga

13:30-14:00 Kristín Nanna Einarsdóttir: „Organsláttur lífsins“ og blístur almættisins: Organistinn og séra Jón Prímus í taóísku ljósi

14:00-14:30 Halldór Guðmundsson: Bakdyrnar standa opnar: hlutverk dulspekinnar í raunsæisverkum Halldórs Laxness

14:30-15:00 Benedikt Hjartarson: Um fiðlukenndan róm og annarlegan söng hins dreymna austræna vitrings: Tagore á Íslandi


Vigdísarstofnun heldur viðburðinn í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Gljúfrastein í Auðarsal, Veröld – hús Vigdísar, 16. október kl. 10:00-15:00.