Síðustu sýningardagar

25/09 2014

Auður Sveinsdóttir  var fædd á Eyrarbakka hinn 30. júlí árið 1918. Hún lést 29. október 2012.

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýninguna um Auði á Gljúfrasteini í Listasal Mosfellsbæjar en henni lýkur sunnudaginn 28. september.

Opið verður sem hér segir:

Fimmtudag frá kl. 12:00 - 18:00
Föstudag frá kl. 12:00 - 18:00
Laugardag frá kl. 12:00 - 17:00. Leiðsögn kl. 12 og 15
Sunnudag frá kl. 12:00 - 17:00. Leiðsögn kl. 15:00

Yfir 1000 gestir hafa þegar séð sýninguna. Boðið hefur verið upp á leiðsögn og málþingið ,,Hvað veistu um lopapeysuna“ haldið, í tengslum við ,,Lopapeysuverkefnið“ sem er samstarfsverkefni þriggja safna; Hönnunarsafns Íslands, Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Gljúfrasteins. Ásdís Jóelsdóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hélt inngangserindi og greindi frá rannsóknarverkefni sínu um uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar og tengsl hennar við íslenska arfleifð.

Á vef Gljúfrasteins er að finna undirsíðu tileinkaða Auði og verkum hennar. Við þá síðu mun ýmislegt bætast þar á meðal ljósmyndir og fleira er varðar sýninguna í Listasal Mosfellsbæjar svo allir geti  fræðst um þessa fyrstu sýningu sem tileinkuð er Auði Sveinsdóttur.