Sesselja Kristjánsdóttir og Helga Bryndís Magnúsdóttir á Gljúfrasteini

12/08 2014

Sesselja Kristjánsdóttir og Helga Bryndís Magnúsdóttir

Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari koma fram á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins þann 17. ágúst. Þær munu flytja sígaunaljóð eftir Dvorak og hebresk ljóð eftir Ravel.

Sesselja Kristjánsdóttir, mezzósópran stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan hélt hún í framhaldsnám til Berlinar í Hochschule für Musik „Hanns Eisler“ og lauk þar diplómuprófi  með hæstu einkunn. Sesselja hlaut Bayreuth-styrk þýsku Richard Wagner samtakanna sumarið 2000. Sesselja hefur sinnt flutningi  óperu-,ljóða-,óratoríu-, og kammertónlistar jöfnum höndum. Hún hefur  komið fram á fjölda  tónleika  hér heima og erlendis m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmoníusveit Sankti Pétursborgar, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Meðal helstu verkefna hennar á  þessu sviði má nefna: Mozart Requem, Magnificat, Messa í h-moll og Jólaóratoría Bachs, Stabat Mater e. Pergolesi, Messias e. Handel, Gloría e. Vivaldi, Messa í D e. Dvorak og Petit Messe Solennelle Rossinis. Þá söng hún  Missa Solemnis og 9.sinfoníuna  e. Beethoven  með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn  Vladimir Ashkenazy, þá síðar nefndu við opnun Hörpu 2011. Meðal  hlutverka hennar á óperusviðinu eru Carmen, Rosina í Rakaranum í Sevilla, Öskubuska í samnefndri óperu Rossinis, Cherubino í Brúðkaupi Figarós. Sesselja söng inn á geislaplötuna Svanasöngur á heiði ásamt Jónasi Ingimundarsyni.

Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari lauk námi við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1987 sem einleikari og kennari og var Jónas Ingimundarson aðalkennari hennar þar.  Framhaldsnám stundaði hún  í Vínarborg og Helsinki. Eftir að námi lauk hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammermúsik ýmiskonar og þá ekki hvað minnst með söngvurum. Hún starfaði lengi við Tónlistarskólann á Akureyri og einnig á Dalvík og sem organisti við nokkrar kirkjur í Eyjafirði ásamt því að  stjórna Samkór Svarfdæla og Kór Möðruvallakirkju. Hún starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ. Hún er einnig meðlimur í Caput hópnum.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.