“Í hverjum stað þar sem frjálsræði er vanrækt, forboðið eða drepið niður, verður ekki hjá því komist að ómensk öfl nái tökum á mentalífinu og beri þar yfirhönd.” Svo skrifaði Halldór Kiljan Laxness í grein sinni “Upphaf mannúðarstefnu” sem upphaflega birtist í Tékkóslóvakíu árið 1963.
Mikið hefur verið skrifað um rithöfundinn Halldór Laxness og hafa skáldsögur hans átt þátt í að skapa menningu nútíma íslensks samfélags. Auk þess að skrifa bækur, ljóð og leikrit skrifaði Halldór á löngum ferli sínum í íslensk og erlend blöð og tímarit um allt milli himins og jarðar. Framan af ritaði hann ótölulegan fjölda ritgerða um þjóð sína og hvernig stuðla mætti að framförum hjá henni. Hann tók virkan þátt í stjórnmálaumræðum um langt árabil, ritaði um umhverfismál og landbúnað, auk menningarrýni af ýmsum toga, svo fátt eitt sé nefnt. Hann var alla tíð umdeildur fyrir skoðanir sínar, enda beitti hann stílvopni sínu af fullu afli ef svo bar undir.
Hér á heimasíðu Gljúfrasteins er hægt að lesa nokkrar greinar Halldórs í fullri lengd og útdrætti og lýsingar á öðrum. Hægt er að smella á valmyndina hér til vinstri til þess að lesa einstakar greinar.