Í ár minnumst við þess að 90 ár eru liðin frá því að fyrra bindi skáldsögunnar um Sölku Völku kom út, undir heitinu: Þú vínviður hreini. Ári seinna kom út seinna bindið, Fuglinn í fjörunni, þannig á bókin um Sölku Völku tvöfallt níræðis afmæli, í ár og á næsta ári.
Bókin byrjar þar sem Salka og móðir hennar Sigurlína koma í land á Óseyri við Axlarfjörð. Þær koma með allar eigur sínar í litlum poka fyrir utan fatalarfa sem þær voru í, eða eins og skáldið lýsti þeim þar sem þær biðu áheyrnar kaupmannsfrúarinnar í von um vinnu og húsaskjól: “Í samanburði við þessi sterku snilldarlegu húsgögn voru þessar tvær kvenverur áþekkastar rusli sem hefur verið tínt saman niðri í fjöru, - fjarri öllu samræmi við umhverfið, blátt áfram hlægilegar”. Salka horfir forvitin í kringum sig í þessu framandlega umhverfi enda hafði hún, ólíkt móður sinni sem sat hreyfingarlaus og laut höfði, “minni reynslu um drottinvald þjóðfélagsins...“ Þú vínviður hreini, fyrsta bók, ástin.
Salka Valka er með þekktustu bókum Halldórs og hefur m.a. verið gerð kvikmynd upp úr henni. Ítarlega umfjöllun um framleiðsluferli Sölku Völku og viðtökur Íslendinga á kvikmyndinni má finna í grein Arnalds Indriðasonar úr Morgunblaðinu þann 7. október 1995.