Vinnustofan Cannibalise Modernism fer fram þessa vikuna á Gljúfrasteini en hún er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands (LHÍ) og Gljúfrasteins – húss skáldsins. Þátttakendur í vinnustofunni eru nemendur við Hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ og Myndlistardeild sama skóla en umsjón með vinnustofunni hafa þau Birta Fróðadóttir arkitekt, Marta Guðrún Jóhannesdóttir safnafræðingur við Gljúfrastein og Thomas Pausz aðjúnkt við Hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ.
Markmið vinnustofunnar er að nýta safneign Gljúfrasteins sem efnivið í nýja hönnun. Auk þess að vinna með safnkost Gljúfrasteins vinna nemendur með þau efni sem tilheyra framleiðslu á svæðinu ásamt nærumhverfi safnsins í Mosfellsdal.
Þátttakendur hafa ferðast um Mosfellsdalinn og fengið þar m.a. að kynnast verkum Birtu Fróðadóttir húsgagnasmiðs og innanhússarkitekts sem kom að sköpun Gljúfrasteins ásamt fleirum. Rósabændur í Dalsgarði hafa verið heimsóttir ásamt Dísu Jóhannsdóttur söðlasmiði og hönnuði. Einnig hafa fyrirtækin Ístex og Múlalundur verið sótt heim.
Vinnustofan er með starfsstöð í Bókasafni Mosfellsbæjar við Þverholt í Mosfellsbæ og þar má að hluta sjá afrakstur vikunnar; teikningar nemenda og fleira. Stefnt er að útgáfu efnis í tengslum við vinnustofuna sem kynnt verður síðar.