Næstkomandi sunnudag, þann 21. júlí, verða 8. stofutónleikar sumarsins haldnir á Gljúfrasteini. Þar koma fram Ögmundur Þór Jóhannesson, gítarleikari og Páll Palomares, fiðluleikari sem kalla sig einu nafni Duo Weinberg. Munu þeir leika létta danssveiflu frá Rúmeníu og víðar.
Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00 og aðgangseyrir er 1000 kr.
Ögmundur Þór Jóhannesson gítarleikari er fæddur þann 16. desember 1980, en hann sleit bernskuskónum í Kópavogi. Hann lauk burtfararprófi með láði í gítarleik frá Tónlistarskóla Kópavogs vorið 2000. Hann lagði stund á einkanám í gítarleik í Barcelona á Spáni í Escola Luthier d'arts musicals 2000-2002. Kennarar hans þar voru m.a Arnaldur Arnarsson, Ricardo Gallén, Alex Garrobé og Sadahiro Otani. Ögmundur lauk mastersnámi í júní 2008 með hæstu einkunn á prófi frá Universität Mozarteum í Salzburg, en þar lauk hann einnig bachelorsnámi í júní 2005 með hæstu einkunn á prófi (summa cum laude), undir handleiðslu Marco Diaz-Tamayo. Hann hefur einnig sótt fjölda námskeiða, m.a hjá Manuel Barrueco, David Russell, Aniello Desiderio, Costas Cotsiolis, Joaquín Clerch og Thomas Müller-Pering.
Ögmundi hafa hlotnast viðurkenningar og verðlaun hérlendis sem og á erlendri grund svo sem 2. verðlaun í hinni alþjóðlegu Agustin Barrios gítarkeppni í Lambesc í Suður-Frakklandi þann 6. júlí árið 2003. Árið 2011 var hann verðlaunahafi í alþjóðlegu gítarkeppnunum í Bangkok, Thailandi og í Tokyo, Japan.
Páll Palomares er fæddur í Murcia (Spáni) árið 1987. Hann hóf fiðlunám sex ára gamall undir handleiðslu foreldra sinnar, Unnar Pálsdóttur og Joaquín Palomares. Haustið 2002 byrjaði hann í Tónlistarskóla Kópavogs og kennari hans var Margrét Kristjánsdóttir. Útskrifaðist hann þaðan vorið 2005 með hæstu einkunn og hóf hann sama haust nám í Listaháskóla Íslands, að þessu sinni hjá Auði Hafsteinsdóttur. Útskrifaðist með Diplom gráðu í maí 2008. Haustið 2008 hóf hann nám við Hochschule für Musik "Hanns Eisler" í Berlín. Kennarinn hans þar er Ulf Wallin. Hann lauk því í Febrúar 2013.
Páll hefur verið Konsertmeistari í flestum ungmennahljómsveitum á Íslandi. Auk þess er hann lausráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan haust 2006. Hann var einn af sigurvegurum íslensku keppninnar “Ungir einleikarar” árið 2007 og þar að leiðandi spilaði hann Sibelius fiðlukonsertinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ásamt sóló- og hljómsveitarferlinum er hann einnig mjög virkur í kammertónlistinni þar sem hann er meðal annars meðlimur Trío Esju og Nielsen Quartet. Núverandi er Páll einn af leiðurum 2. fiðlu í Randers Kammerorkester í Danmörku.
Hér má finna dagskrá sumartónleika fyrir sumarið 2013