Rómantískar píanósónötur á Gljúfrasteini

31/07 2012

Hákon Bjarnason

Velkomin á stofutónleika Gljúfrasteins! Sunnudaginn 5. ágúst mun Hákon Bjarnason flytja verk eftir tvö tónskáld rómantíska tímabilsins, Beethoven og Schumann. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00 og aðgangseyrir er 1.000 kr.

Á efnisskránni eru Píanósónata nr. 27 eftir Beethoven og Píanósónata nr. 2 eftir Schumann. Hákon mun einnig útskýra uppbyggingu sónötuformsins fyrir gestum, þeim til ánægju og yndisauka.

Ludwig van Beethoven (1770-1827) er eitt ástsælasta tónskáld vestrænnar listasögu. Beethoven starfaði lengst af í Vín og samdi þar sín helstu verk. Á þrítugsaldri fór heyrn hans að daprast en hann hélt áfram að semja, jafnvel eftir að hafa misst heyrn sína algjörlega.

Robert Schumann (1810-1856) var eitt af þekktustu tónskáldum 19. aldarinnar. Hann samdi fjölda tónverka fyrir píanó og var einnig mikilsmetinn tónlistargagnrýnandi. Hann giftist Klöru Schumann, tónskáldi og virtum píanóleikara. Schumann lést aðeins 46 ára að aldri, eftir tveggja ára vist á geðveikrahæli.

Hákon Bjarnason útskrifaðist með Bachelor of Music gráðu frá Listaháskólanum vorið 2008 og hlaut hæstu einkunn fyrir útskriftartónleika sína. Í október 2009 vann Hákon píanókeppni Íslandsdeildar EPTA í hæsta aldursflokki. Í kjölfarið tók Ríkisútvarpið upp þrjú verk í flutningi Hákonar og útvarpaði á nýársdag 2010. Hann hefur áður unnið til þessara verðlauna, en tvo yngri flokka keppninnar vann hann árin 2000 og 2003. Hákon var einn sigurvegara í Einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2007 og lék fyrsta píanókonsert Prokofjeffs með hljómsveitinni í janúar 2008. Haustið 2008 flutti hann til Berlínar og sótti þar einkatíma. Hákon stundar nú nám við Konservatoríið í Amsterdam.