Judith Ingólfsson fiðluleikari og Vladimir Stoupel píanóleikari munu flytja verk eftir Robert Schumann, Johannes Brahms og Albert Dietrich á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 23. ágúst.
Judith Ingólfsson og Vladimir Stoupel hafa komið fram á ógrynni tónleika og tónlistarhátíða víða um heim, til að mynda í Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Judith og Vladimir hafa gegnt stöðu listrænna stjórnenda við “Aigues-Vives en Musiques“ hátíðina í Suður-Frakklandi frá árinu 2009. Dúóið hefur einnig gefið út tvær hljómplötur, sú fyrri árið 2010 með verkum Simon Laks, og sú síðari árið 2011 með verkum Stravinsky og Shostakovich. Sú plata hlaut góðar viðtökur og var tilnefnd til ICMA verðlaunanna árið 2013.
Judith Ingólfsson fæddist í Reykjavík og hóf fiðlunám sitt þriggja ára að aldri. Sjö ára kom Judith fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og sinfóníuhljómsveit í Þýskalandi. Við upphaf níunda áratugsins fluttist Judith ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þar sem hún komst fjórtán ára í The Curtis Institute of Music í Fíladelfíu, þar nam hún fiðluleik hjá Jascha Brodsky. Judith lauk námi sínu með meistaragráðu frá The Cleveland Institute of Music undir handleiðslu David Cerone og Donald Weilerstein. Hún hefur komið fram sem einleikari í virtari hljómleikahöllum heims, þar á meðal Konzerthaus í Berlín, Óperuhúsinu í Tókýo, Kennedy Center í Washington D.C. og Carnegie Hall í New York. Judith hefur unnið með stjórnendum á borð við Wolfgang Sawallisch, Raymond Leppard, Gilbert Varga, Jesús López-Cobos, Rico Saccani, Gerard Schwarz, og Leonard Slatkin. Fyrir utan að hafa unnið til gullverðlauna í Alþjóðlegu fiðlukeppninni í Indianapolis, hefur hún einnig unnið til verðlauna við Premio Paganini keppnina í Genúa og CAG keppnina í New York. Judith hefur gegnt stöðu prófessors við Stuttgart listaháskólann í Þýskalandi frá árinu 2008.
Vladimir Stoupel fæddist í Rússlandi og hóf píanónám sitt þriggja ára að aldri. Hann kom fyrst fram opinberlega tólf ára þegar hann spilaði fyrsta píanókonsert Tsjaíkovskíj í Konservatoríuhöllinni í Moskvu. Vladimir lærði píanóleik og hljómsveitarstjórnun hjá Gennady Rozhdestvensky við Konservatoríuna í Moskvu og var nemandi rússneska píanóleikarans Lazar Berman í tæp fimm ár. Vladimir hefur komið fram sem einleikari með fjölda sinfóníuhljómsveita í m.a. Þýskalandi, Rússlandi og Bandaríkjunum. Hann hefur unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Christian Thielemann, Michail Jurowski, Leopold Hager, Marek Janowski, Steven Sloane, Patrik Ringborg og Günther Neuhold. Vladimir hefur gefið út hljómplötur af flutningi sínum á verkum tónskálda eins og Alexander Scriabin, Henri Vieuxtemps og Shostakovich, auk fjölda annarra.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.