Næstkomandi sunnudag, 27. febrúar, verður lesið upp úr verkum sem komið hafa út í ritsöfnum Ritvélarinnar, félags ritlistarnema við Háskóla Íslands. Fjórir ungir rithöfundar lesa upp úr verkum sínum: Gunnhildur Helga Steinþórsdóttir, Hlín Ólafsdóttir, Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir og Kristján Már Gunnarsson. Upplesturinn hefst klukkan 16 og er aðgangur ókeypis.
Ritvélin er nafnið á nemendafélagi ritlistarnema við Háskóla Íslands. Félagið hefur þrátt fyrir stuttan tíma, um tvö ár, gefið út tvö safnrit með textum meðlima. Það er yfirlýst markmið með útgáfunni að skapa vettvang fyrir ritlistarnema til að koma efni sínu á framfæri, sem oftar en ekki eru að koma fram í fyrsta sinn á ritvellinum. Hestar eru tvö ár að gleyma kom út árið 2009 og Beðið eftir Sigurði var gefin út núna í desember 2010.
Núna í vetur munu nemendur í ritlist við Háskóla Íslands stíga á stokk í stofunni á Gljúfrasteini og lesa upp úr nýjum verkum sínum. Í ritlist gefst áhugafólki um ritsmíðar færi á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra höfunda. Lögð er áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í listrænum texta af ýmsu tagi. Frá því að Gljúfrasteinn var byggður árið 1945 hefur húsið verið miðstöð menningar hér á landi og því er ánægjulegt að samstarf hafi hafist við ritlistardeild HÍ með þessu móti.
Núna í janúar síðastliðnum voru lesin upp ljóð en í þessum mánuði verða lesin úr útgefnum verkum Ritvélarinnar. Í mars verða lesnar furðusögur á Gljúfrasteini, í apríl verður kynnt samstarf ritlistarnema og myndlistarnema og lesið úr myndskreyttum sögum, og í maí verður lesið úr skapandi ritgerðum, verkum sem á ensku nefnast creative non-fiction.