Síðasta laugardag bauð Vinafélag Gljúfrasteins upp á göngu um miðbæ Reykjavíkur í fylgd Péturs Ármannssonar arkítekts.
Gangan hófst við Laugarveg 32, fæðingarstað Halldórs Laxness og endaði á Vesturgötu 28, sem var heimili hans á stríðsárunum, hvaðan hann flutti yfir á Gljúfrastein árið 1945.
Pétur leiddi göngugesti þvers og kruss um Kvosina. Meðal viðkomustaða var Laugavegur 28, þar sem Halldór bjó árin 1916 til 1918 þegar hann var í Menntaskólanum í Reykjavík; Veghúsastígur 9, sem var heimili Halldórs veturinn 1915 til 1916 þegar hann stundaði nám í Iðnskólanum; og Laufásvegur 25, þar sem Halldór bjó ásamt fyrri konu sinni, Ingu, árin 1930 til 1939 og segja sumir að hann hafi lokið við ritun Sjálfstæðs fólks í risinu á því húsi. Einnig var stoppað við í Melkoti sem er fyrirmynd að bænum Brekkukoti í skáldsögu Halldórs Brekkukotsannál sem kom út árið 1957. Melkot var rifið árið 1915, en það stóð í garðinum á Ráðherrabústaðnum á Tjarnargötu.
Veðurguðirnir brostu ekki við þessari göngu, en þó mættu yfir 30 manns til að feta fótspor Halldórs í Kvosinni. Ekki er alls ólíklegt að þessi ganga verði endurtekin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.
Vinafélag Gljúfrasteins var stofnað þann 23. apríl 2010. Tilgangur félagsins er að veita Gljúfrasteini stuðning og aðstoð og að efla vitund um arf Halldórs Laxness og mikilvægi hans. Á því ári sem félagið hefur starfað hefur það staðið fyrir ýmsum viðburðum og lagt grunn að því hvernig það getur stutt við starfsemina á Gljúfrasteini.
Vinafélag Gljúfrasteins er áhugamannafélag og er öllum opið. Nánari upplýsingar má finna um vinafélagið hér á heimasíðu Gljúfrasteins.