Lopapeysuverkefnið er samstarfsverkefni Gljúfrasteins, Hönnunarsafns Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi sem nú óska eftir starfskrafti til þess að vinna að sérstakri rannsókn á lopapeysunni.
Verkefnið hefur það að markmiði að varpa ljósi á hönnunarsögu íslensku lopapeysunnar, þátt Auðar Sveinsdóttur Laxness og annarra kvenna sem sannarlega tóku þátt í þróun og hönnun peysunnar. Uppruni, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar og tengsl hennar við íslenska arfleifð verða kannaðir sérstaklega í rannsókninni sem mun hefjast eigi síðar en í september á þessu ári.
Þessir þættir hafa lengi vakið áhuga og athygli eins og nýleg umfjöllun um íslensku lopapeysuna í The Reykjavík Grapevine ber vott um. Söfnin þrjú vonast til þess að með frumkvæði þeirra að gerð sérstakrar rannsóknar á lopapeysunni megi varpa ljósi á uppruna hennar sem mögulega verður miðlað með sýningu að rannsókn lokinni.
Á síðu um verkefnið má nálgast frekari upplýsingar um það og þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda um starfið.