Haukur Ingvarsson og Jenna Sciuto munu halda erindi um Sölku Völku í stofunni á Gljúfrasteini laugardaginn 24. júní kl. 14.00. Til umfjöllunar verður meðal annars plássið og samskipti kynjanna auk þess sem Salka Valka verður sett í samhengi við bandarískar bókmenntir. Haukur mun fjalla um „Plássið hennar Sölku“ og tengja við smábæjarbyltinguna í bandarískum bókmenntum. Erindi Jennu Sciuto verður flutt á ensku og ber yfirskriftina „Gender Dynamics and Love Triangles in Halldór Laxness’s Salka Valka and William Faulkner’s Sanctuary“.
Haukur Ingvarsson er rithöfundur og nýdoktor við Háskóla Íslands. Meðal verka hans eru verðlaunaljóðabækurnar Vistarverur (2018) og Menn sem elska menn (2021) og fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960 (2021).
Jenna Grace Sciuto er lektor í ensku við Massachusetts College of Liberal Arts. Hún hefur ritað greinar og bókakafla, m.a. um verk Williams Faulkners og er höfundur bókarinnar Policing Intimacy: Law, Sexuality, and the Color Line in Twentieth-Century Hemispheric American Literature, sem University Press of Mississippi gaf út árið 2021. Hún vinnur nú að bók sem ber heitið Peripheralized Norths and Souths: Colonial Liminality, Representation, and Intersecting Identities in US Southern and Icelandic Literatures.
Fyrirlesturinn er haldin í samstarfi Gljúfrasteins, The Nordic Faulkner Studies Network og Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands. Frítt er inn á viðburðinn og öll velkomin.