Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Pétri Gunnarssyni Íslensku þýðingaverðlaunin 2023 við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini laugardaginn 18. febrúar. Pétur hlaut verðlaunin fyrir þýðingu sina á Játningunum eftir Jean-Jaques Rousseau. Mál og menning gefur út.
Að íslensku þýðingaverðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.
Í dómnefnd sátu Guðrún H. Tulinius (formaður), Elísabet Gunnarsdóttir og Þórður Helgason.
Umsögn dómnefndar er eftirfarandi:
„Í Játningum sínum gengur Rousseau á hólm við sjálfan sig og tilveru sína og dregur ekkert undan, eins og hann raunar lofar lesendum sínum, og birtist okkur án skrautklæða, nánast nakinn, og leggur áherslu á að hann sé einstakur þótt hann beri ekki af öðrum mönnum. Rousseau ætlar þessu verki sínu dýrmætt hlutverk; það skal vera framlag hans til rannsóknar á manninum og eðli hans. Líklega er honum ljóst að sjálfsævisögur manna eru ekki ævinlega gott frumgagn til að kynnast mannskepnunni eins og hún er í raun. Hann lýsir yfir: Svona er ég. Hvernig eruð þið? Þið getið dæmt mig en eruð þið, ef þið afhjúpist, eitthvað skárri? Því má þannig ekki gleyma að Játningarnar er öðrum þræði varnarrit manns sem telur sig órétti beittan, jafnvel ofsóknum, enda virtist Rousseau sjá óvini í mörgu horni.
Segja má að vorir tímar séu ekki tími játninga. Kannski má öllu fremur kenna þá við yfirhylmingar. Sakaðir um ýmsa ósvinnu veifa menn gjarna sakleysi sínu en engri sök, og finna þar til margt, kenna ýmsu og ýmsum um, en ekki sér sjálfum. Játningar Rousseau eru því að þessu leyti merkilegt framlag til vorra tíma: Við skulum gangast við því að við erum ekki fullkomin; okkur verður á, stundum illilega. Við skulum viðurkenna það.
Þýðanda er mikill vandi á höndum en Pétri bregst ekki bogalistin. Þýðing hans stendur undir væntingum allra þeirra sem láta sig varða íslenskt mál og möguleika þess til tjáningar. Í fyrstu bók Játninganna ritar Rousseau þetta: “Dómsdagslúðurinn má gjalla þegar honum líst og ég mun mæta mínum æðsta dómara með þessa einu bók í hendi.” Með þessa góðu þýðingu Játninganna getur Pétur Gunnarsson mætt sínum æðsta dómara og fengið sér sæti við hlið Rousseau.“
Aðrir tilnefndir þýðendur voru:
Árni Óskarsson: Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu
Friðrik Rafnsson: Svikin við erfðaskrárnar
Heimir Pálsson: Norrlands Akvavit
Jón St. Kristjánsson: Uppskrift að klikkun
Silja Aðalsteinsdóttir: Aðgát og örlyndi
Soffía Auður Birgisdóttir: Útlínur liðins tíma