Viltu ekki fara frá þessum manni? Setningin skellur á hlustunum; hún heyrir hvað amma segir en hverju á hún að svara? Ef þér er alveg fyrirmunað að hugsa um sjálfa þig, viltu þá gera það fyrir mig að hugsa um skáldsöguna þína? (úr Ósjálfrátt útg. 2012 eftir Auði Jónsdóttur).
Auður Jónsdóttir rithöfundur og barnabarn Auðar Sveinsdóttur og Halldórs Laxness sendi frá sér skáldævisöguna Ósjálfrátt árið 2012 og hlaut fyrir hana Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta ásamt því að vera valin þriðja besta skáldsaga ársins af bóksölum.
Í hverri viku velur Rás 1 bók sem bókmenntasérfræðingar rásarinnar rýna í á laugardögum í vetur ásamt gestum og hlustendum. Lesið er úr bók vikunnar og birt viðtal við höfundinn í Hátalaranum á virkum dögum. Leshringurinn er á facebook.is/bokvikunnar
Bók vikunnar í dag laugardag, þann 18.október, er Ósjálfrátt og fjölluðu þau Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Halldór Guðmundsson ásamt þeim Magnúsi Erni Sigurðssyni og Þresti Helgasyni um verkið.
Fyrir þessa bók hefur Auður hlotið tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin miðvikudaginn 29. október í Stokkhólmi.